Róbert Wessman forstjóri Alvogen og stjórnarformaður Alvotech var í vikunni kosinn í stjórn japanska lyfjafyrirtækisins Fuji Pharma. Mbl.is greinir frá.
Fuji Pharma keypti í desember síðastliðnum 4,6 prósent eignarhlut í Alvotech fyrir 6,2 milljarða króna. Fyrirtækin tilkynntu í nóvember um samstarf þar sem Alvotech þróar og framleiðir líftæknilyf fyrir Japansmarkað.
Alvotech hafði nýverið fengið framleiðsluleyfi fyrir hátæknisetur fyrirtækisins hér á Íslandi. Það þýðir að fljótlega fara að hefjast klínískar rannsóknir á þeim lyfjum sem eiga að fara á markað. Ganga vonir fyrirtækisins eftir verða nýju lyfin markaðssett 2020 og árstekjur fyrirtækisins vel á annað hundrað milljarðar króna á ári.
Fuji Pharma er skráð í kauphöllina í Tokyo og tilkynnt var um nýja stjórn í vikunni á hluthafafundi fyrirtækisins í Tokyo. Þá fjárfesti Alvogen einnig nýlega í Fuji Pharma og er nú þriðji stærsti hluthafi fyrirtækisins í gegnum dótturfyrirtæki sitt í Taiwan, með um 4 prósent eignarhlut.
Í tilkynningu kemur fram að Alvotech og Fuji hafi á undanförnum mánuðum átt í nánu samstarfi um markaðssetningu líftæknilyfja Alvotech í Japan sem nú eru í þróun.