Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, óskaði Boris Johnson til hamingju með kjörið sem næsti forsætisráherra Bretlands í færslu sinni á Twitter. Trump sagði hann jafnframt munu verða frábæran.
Barist var um ráðherrastólinn á milli tveggja frambjóðenda, Boris Johnson og Jeremy Hunt. Boris Johnson hlaut kjörið og verður nýr forsætisráðherra Bretlands. Boris hlaut 92.153 atkvæði og Jeremy 46.656 atkvæði, alls kusu 87,4 prósent meðlima Íhaldsflokksins.
Congratulations to Boris Johnson on becoming the new Prime Minister of the United Kingdom. He will be great!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 23, 2019
Johnson sagði umdeild ummæli Donalds Trump um að fjórar bandarískar þingkonur sem eru dökkar á hörund ættu að „fara aftur til síns heimalands“ vera algjörlega óviðeigandi. Hann sagði þó að ummælin væru ekki rasísk.
Ummælin lét Trump falla um Alexandriu Ocasio-Cortez, Rashidu Tlaib og Ayanna Pressley sem allar eru fæddar í Bandaríkjunum, auk þess sem orð Trump áttu við Ilhan Omar sem kom til Bandaríkjanna sem flóttamaður frá Sómalíu þegar hún var einungis tólf ára.
Síðasti dagur May sem forsætisráðherra
Í dag er síðasti dagur Theresu May sem forsætisráðherra og mun hún leita til drottningar Bretlands til að biðjast lausnar frá ráðherraembætti sínu ásamt því að tilnefna hinn nýkjörna forsætisráðherra.
Boris þakkaði Theresu May fyrir starf sitt og Jeremy Hunt fyrir góða kosningabaráttu. Hann sagði almenning jafnframt hafa trú á sér og Íhaldsflokknum að geta sameina landið, halda Brexit til streitu og sigra Jeremy Corbyn.