Theresa May svaraði í síðasta skipti fyrirspurnum frá þingmönnum sem forsætisráðherra Bretlands í dag. Til harðra orðaskipta kom á milli May og Jeremy Corbyn, formanns Verkamannaflokksins. May sagði að Corbyn ætti að skammast sín fyrir að hafa kosið gegn Brexit samningi hennar og að hann ætti að segja af sér. „Sem einhver sem veit hvenær sé hennar tími til að gefast upp, sting ég upp á að Corbyn átti sig á því að nú sé hans tími til að hætta runninn upp,“ sagði May.
Corbyn þakkaði May fyrir þjónustu hennar fyrir almenning. Síðan sótti hann hart að May og spurði hvort hún harmaði ástand almennings í Bretlandi, þar sem barnafátækt hefði aukist, glæpum fjölgað sem og heimilislausum. May svaraði að nú væru börn í betri skólum, meiri atvinnuþátttaka væri í Bretlandi auk þess sem aðstæður almennings hefðu batnað.
Boris nýr forsætisráðherra
Í gær réðust úrslitin um nýjan forsætisráðherra Bretlands. Barist var um ráðherrastólinn á milli tveggja frambjóðenda, Boris Johnson og Jeremy Hunt. Tilkynnt var um kjörið á vef BBC. Fyrir úrslitin var Boris Johnson talinn líklegri til að hreppa hnossið og verða forsætisráðherra.
Boris hlaut 92.153 atkvæði og Jeremy 46.656 atkvæði, alls kusu 87,4 prósent meðlima Íhaldsflokksins. Boris þakkaði Theresu May fyrir starf sitt og Jeremy Hunt fyrir góða kosningabaráttu. Hann sagði almenning jafnframt hafa trú á sér og Íhaldsflokknum að geta sameina landið, halda Brexit til streitu og sigra Jeremy Corbyn.
Í dag mun Boris Johnson taka við keflinu og mynda nýja ríkisstjórn og Theresa May mun fara á fund drottningar í dag og biðjast lausnar frá embætti sínu. Theresa May segist munu áfram verða þingmaður og að hún sé ánægð að einhver sem hafi verið í hennar ríkisstjórn muni taka við keflinu.
Halda þurfi Corbyn frá ríkisstjórn
Theresa óskaði Boris til hamingju með sigurinn í færslu á Twitter. Hún sagði einnig að nú þurfi að vinna að því að halda Jeremy Corbyn, frá ríkisstjórn.
Many congratulations to @BorisJohnson on being elected leader of @Conservatives - we now need to work together to deliver a Brexit that works for the whole UK and to keep Jeremy Corbyn out of government. You will have my full support from the back benches.
— Theresa May (@theresa_may) July 23, 2019
Corbyn segir í Twitter-færslu að Johnson hafi ekki unnið sér inn stuðning landa sinna. „Boris Johnson hefur fengið stuðning færri en 100.000 meðlima Íhaldsflokksins með því að lofa lækkun skatta fyrir hina ríku, með því að gefa sig út fyrir að vera vinur bankamannsins og ýta á eftir eyðileggjandi No Deal Brexit,“ skrifar hann.
Hann telur að No Deal Brexit muni þýða fækkun starfa, hækkun vöruverðs og auka líkur á að heilbrigðisþjónusta muni vera seld til bandarískra fyrirtækja með hjartfólgnum samningi við forseta Bandaríkjanna, Donald Trump. Corbyn segir jafnframt að fólkið í Bretlandi eigi að ákveða hver verði forsætisráðherra landsins í almennum kosningum.