Um 520 hótelherbergi bætast við hótelmarkaðinn í Reykjavík á sex mánaða tímabili, frá júní 2019 til næstu áramóta. Þar að auki mun bætast við að minnsta kosti 51 ný hótelíbúð í miðbænum á sama tímabili. Þá verða 150 ný herbergi á Marriott-hótelinu sem opnar við Leifsstöð í haust. Þetta kemur fram í samantekt Morgunblaðsins í dag.
Nýting hótela dróst saman um sex prósent í fyrra
Ferðamaður hér á landi ver stærstum hluta neyslu sinnar í gistiþjónustu eða 23 prósent af heildarneyslu sinni. Frá árinu 2010 samhliða uppgangi í ferðaþjónustu áttu hótel í Reykjavík í fullu fangi með að mæta aukinni eftirspurn eftir gistingu hér á landi samhliða uppgangi ferðaþjónustunnar frá árinu 2010. Þessi mikla umfram eftirspurn skapaði skilyrði fyrir talsverðar verðhækkanir en verð á hótelum í Reykavík hækkaði um 60 prósent á tímabilinu 2011 til 2017 á meðan það stóð í stað hjá hótelum innan Evrópu að meðaltali.
Síðan á seinni hluta ársins 2017 hefur nýting hótelherbergja hins vegar lækkað í flestöllum landshlutum. Nýting hótela í Reykjavík dróst saman um tæp sex prósentustig á árinu 2018 miðað við fyrra ár eða úr 84,4 prósentum á árinu 2017 í 78,6 prósent á árinu 2018.
Hótel í Reykjavík veltu aftur á móti tæplega 25 milljörðum á síðastliðnu ári og jókst veltan um 5,8 prósent frá árinu 2017. Meðalverð hótela í Reykjavík jókst um 3,3 prósent á árinu 2018 miðað við fyrra ár og náðist því aukin velta með hærri meðalverði yfir árið þrátt fyrir lakari nýtingu.
Ferðamönnum hefur fækkað um 12,4 prósent
Brottförum ferðamanna hefur hins vegar fækkað hér á landi í hverjum mánuði frá síðustu áramótum. Í janúar fækkaði brottförum um 5,8 prósent, í febrúar um 6,9 prósent, í mars um 1,7 prósent, í apríl um 18,5 prósent, um 23,6 prósent í maí og loks 16,7 prósent fækkun í júní eða alls 39 þúsund færri ferðamenn en árið á undan. Í heildina hafa 900 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 12,4 prósent fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.
Samhliða fækkun ferðamanna hefur heildargistinóttum ferðamanna fækkað. Í apríl síðastliðnum fækkaði heildargistinóttum ferðamanna um 6 prósent og um 9 prósent í maí síðastliðnum. Fjöldi gistinótta á hótelum á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar sveiflast meira á milli mánaða.
Gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 14,3 prósent milli ára í apríl síðastliðnum. Í maí fjölgaði hins vegar gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu um 2 prósent samkvæmt tölum Hagstofunnar. Samhliða fækkaði gistinóttum á hótelum á Suðurnesjunum um 25 prósent í maí síðastliðnum en í mánuðinum á undan fjölgaði gistinóttum á Suðurnesjunum um 11 prósent.
Ef litið er yfir tímabilið júní 2018 til maí 2019 samanborið við júní 2017 til maí 2018 má sjá að gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu hefur í heildina aðeins dregist saman um 3 prósent. Á Suðurnesjunum hefur gistinóttum á hótelum hins vegar fjölgað um 2 prósent á sama tímabili.
Þrátt fyrir samdrátt í nýtingu hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu og spár um áframhaldandi fækkun ferðamann er engu að síður áætluð fjárfesting hótela á höfuðborgarsvæðinu, rúmir 61 milljarðar króna út árið 2021 eða um 20 milljarðar að meðaltali ár hvert, samkvæmt greiningu Íslandsbanki frá því í maí. Bankinn áætlar að hótelherbergjum fjölgi um 6 prósent á árinu og 17 prósent árið 2020 eða um 1300 herbergi til og með árinu 2021.
670 hótelherbergi bætast við á hálfu ári
Í samantekt Morgunblaðsins í dag kemur fram að á síðustu sex mánuðum þessa árs bætast við 520 herbergi á sjö hótelum í Reykjavík. Til að mynda hefur nú þegar ný hótelbygging með 38 herbergjum verið tekin í notkun á Vegamótastíg 7-9. Þá var Oddsson hótel við Grensásveg 16a einnig opnað í júní en þar eru 77 hótelherbergi. Auk þess mun sjöunda hótelið í Center- Hótelkeðjunni opna á Laugavegi 95-99 þann 1. ágúst næstkomandi. Þar verða 102 herbergi í nýbyggingu og uppgerðum byggingum. Þá verða 150 herbergi í Marriott-hótelinu hjá Leifsstöð sem opnað verður í haust
Í umfjöllun Morgunblaðsins segir að þrátt fyrir fall WOW séu áform hótelanna óbreytt í megin atriðum. Fjárfesting hótelanna hleypur á 12 til 13 milljörðum, ef miðað er við að hvert hótelherbergi í miðborginni kosti 25 milljónir í byggingu.