Jóhanne E. Torfadóttir, næringarfræðingur og doktor í lýðheilsufræðum, og Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, telja að endurskoða mætti ráðleggingar um mataræði á vegum Embættis landlæknis og að tekið yrði tillit til sjálfbærni og umhverfisáhrifa. Í grein sinni í Læknablaðinu fjalla Jóhanna og Thor um svokallað Flexitarian mataræði þar sem megin áhersla er lögð á fæði úr jurtaríkinu með það fyrir augum að bæta heilsu og draga úr kolefnisútblæstri.
Tæplega þriðjungur af losun gróðurhúsaloftengunda kemur frá matvælaframleiðslu
Í grein Jóhönnu og Thors er fjallað um nýlega grein alþjóðlega vísindahópsins, EAT, sem unnið hefur að því síðustu þrjú ár að setja fram vísindaleg gögn og útreikninga sem sýna hvernig þjóðir heims geti tekist á við aðkallandi vandamál þegar kemur fæðuframboð og mataræði.
Í grein EAT er greint frá því að 30 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda og 70 prósent af notkun fersks vatns kemur til vegna matvælaframleiðslu. Þá krefst ræktun kjöts mestrar nýtingar auðlinda, lands og vatns, og losar mest af gróðurhúsaloftengundum, samanborið við ræktun annara matvæla.
Offita á Íslandi orðin 27 prósent
Á heimsvísu hefur tíðni offitu þrefaldast frá árinu 1975 en í ár eru yfir tveir milljarðar manna í ofþyngd eða glímir við offitu í heiminum. Svipaða þróun má sjá á Íslandi en á tæpum þrjátíu árum hefur tíðni offitu á Íslandi aukist gríðarlega, farið úr 8 prósentum árið 1990 í 27 prósent árið 2017. Samhliða hefur tíðni sykursýki 2 tvöfaldast á síðustu 30 árum.
Óhollt mataræði vegur þyngri sem orsök lífstílstengdra sjúkdóma en áfengisneysla, reykingar, vímuefnaneysla og óvarið kynlíf samanlagt, samkvæmt skýrslu Global Panel on Agriculture and Food Systems for Nutrition.
Þá er krabbamein í dag algengasta orsök dauðsfalla Íslendinga yngri en 75 ára. Í greininni segir að vitað sé að hægt er að koma í veg fyrir 40 prósent krabbameina með lífsstíl, svo sem reglulegri hreyfingu, minni tóbaksnotkun, hæfilegri líkamsþyngd og hollu og fjölbreyttu mataræði. „Það er því til mikils að vinna að bæta og viðhalda góðu mataræði fyrir góða heilsu,“ segir í greininni.
Leggja til að neytt sé fimmfalt minna af rauðu kjöti en landlæknir mælir með
Vísindamenn Eat-hópsins hafa sýnt fram á að með því að breyta mataræði fólks sé hægt að fækka ótímabærum dauðsföllum og minnka kolefnisfótspor svo um munar. Hópurinn leggur til svokallað „Flexitarian“ mataræði þar sem viðmiðin fyrir helstu próteingjafana eru eftirfarandi, miðað við vikuskammt,: 100 gr. af rauðu kjöti, 200 gr. af alifuglakjöti, 200 gr. af fiski, 350 gr. hnetur, 90 gr. egg og 525 gr. baunir/belgjurtir.
„Hér sést að aðaláhersla er lögð á að draga úr neyslu á dýraafurðum en ekki er langt síðan þau viðmið voru sett um allan heim (þar með talið á Íslandi) að ekki væri borðað meira en 500 g vikulega af rauðu kjöti til að minnka líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi. Samkvæmt EAT-skýrslunni minnkar þetta magn fimmfalt en eins og áður sagði þá er kolefnisspor tengt kjötframleiðslu það allra hæsta borið saman við aðrar fæðutegundir,“ segir í greininni.
Kjötneysla Íslendinga hefur aukist frá árinu 2002 en síðustu fæðisframboðstölur sýna að hver landsmaður borðaði að meðaltali 93 grömm af rauðu kjöti daglega. Tekið er þó fram í greininni að taka þurfi þessar tölur með fyrirvara, þar sem fjöldi ferðamanna og rýrnun geti haft áhrif.
„Í dag horfum við fram á að breytinga er þörf og það strax ef takast á að fæða 10 milljarða manna. Stór þáttur í þeirri breytingu er að minnka neyslu á rauðu kjöti og auka neyslu á fæðu úr jurtaríkinu,“ segir í greininni.
Mögulegt sóknarfæri núna fyrir aukna grænmetisneyslu
Embætti landlæknis gefur reglulega út opinberar ráðleggingar um mataræði fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Í ráðleggingum embættisins frá 2017 segir að nú sé meiri áhersla en áður lögð á umhverfismál. „Ef ráðleggingunum er fylgt þá er það jákvætt fyrir umhverfið þar sem aukin neysla á jurtaafurðum og minni neysla dýraafurða hjálpar til við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.“
Í ráðleggingum landlæknis er miðað við að neytt sé 3,5 lítrum af mjólk og/eða mjólkurafurðum á viku sem samkvæmt grein Jóhönnu og Thors eru það nokkuð meira en mælt er með í Eat-skýrslunni sem leggur til 1,8 lítra á viku.
Jafnframt er mælt með minni fiskneyslu í Flexitarian mataræðinu en í íslenskum ráðleggingum en samkvæmt grein Jóhönnu og Thors mætti rökstyðja fiskneyslu tvisvar til þrisvar sinnum í viku vegna þeirra næringarefna sem finna má í sjávarfangi, sem erfitt er að fá annarsstaðar úr fæðinni en þá verði framleiðslan að vera sjálfbær.
Að lokum segir í greininni að mögulega sé nú sóknarfæri til að auka grænmetis og ávaxtaneyslu landsmanna þar sem sífellt fleiri séu orðnir meðvitaðir um hvaða umhverfisáhrif matvælaframleiðsla hefur. Greinarhöfundar leggja því til embætti landlæknis endurskoði mataræðisráðleggingar sínar og taki tillit til sjálfbærni og umhverfisáhrifa eins og vísindamenn EAT-hópsins leggja til. „Flexitarian-mataræði getur verið viðmið til að stefna að fyrir þá sem vilja breyta neysluvenjum til bættrar heilsu og minnka ágang á gæði jarðar,“ segir greinarhöfundar að lokum.