Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra gefur lítið fyrir samanburð á Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Boris Johnson, nýjum forsætisráðherra Bretlands, í viðtalið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Hann segir að ólíku sé saman að jafna, þegar litið er á þessa tvo stjórnmálamenn. „Trump hefur aldrei verið í stjórnmálum og hefur stutt annan stjórnmálaflokk en hann er í núna mjög lengi og kemur allt annars staðar að. Hann er með aðra nálgun en maður sér hjá hefðbundnum stjórnmálamönnum,“ segir utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór skilur ekki hvernig fólk getur stillt þeim Trump og Johnson upp saman. „Trump hefur til dæmis lagt áherslu á herðingu í innflytjendamálum – þú finnur ekki slíkt hjá Boris Johnson – og það sem menn skilgreina oft sem popúlisma. Boris Johnson er búinn að vera í stjórnmálum í áratugi og er frjálslyndur íhaldsmaður. Hann hefur til dæmis verið borgarstjóri í London þar sem hann vann London, sem á ekki að vera hægt fyrir íhaldsmann, og komst hann mjög vel frá því verkefni.“
Prýðisfólk í nýju ríkisstjórninni
Guðlaugur Þór greinir frá því að honum hafi fundist mjög gott að starfa með Johnson þegar hann gegndi stöðu utanríkisráðherra. Hann segir að Johnson kunni að slá á létta strengi.
„Hér fer ekki á milli mála að hér er mjög hæfur stjórnmálamaður á ferðinni með ákveðna sýn á hvert hann vill fara. Hann er óhefðbundinn að mörgu leyti og það held ég að sé í fínu lagi,“ segir hann.
Jafnframt bætir Guðlaugur Þór því við að framundan bíði Johnson gríðarlega erfitt verkefni og að nýi forsætisráðherrann leggi ekki einungis áherslu á Brexit. Hann segir enn fremur að mikið sé af prýðisfólki í nýju ríkisstjórn Johnson sem hann hafi einnig kynnst í gegnum tíðina.