Miðflokkurinn mælist nú þriðji stærsti flokkurinn á Alþingi og mælist nú stærri en Píratar og VG. Þá mælist Samfylkingin næst stærsti flokkurinn með 14,4 prósent fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stærsti flokkurinn þó að fylgi hans dragist saman á milli kannanna og mælist nú 20,5 prósent. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið.
Ekki ánægður með að sjá tölur undir síðustu kosninganiðurstöðum
Fylgi Sjálfstæðisflokksins dregst saman á milli kannana og mælist nú 20,5 prósent. Í síðustu könnun Zenter könnun í júní mældist flokkurinn 22,6 prósent. Þá er fylgi flokksins nú nærri 5 prósentum lægra en það var í kosningum 2017.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Fréttablaðið um niðurstöður könnunarinnar að almennt sé búist við því inn á miðju kjörtímabili að ríkistjórnarflokkarnir gefi eitthvað eftir. „Hafandi sagt það þá er það alveg augljóst að við erum ekki ánægð með að sjá tölur sem eru undir síðustu kosninganiðurstöðum. Við teljum að við séum að vinna góða vinnu sem muni skila sér þegar upp er staðið,“ segir Bjarni.
Í könnun MMR fyrr í mánuðinum mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 19 prósent en það hefur ekki mælst lægra í könnunum MMR eftir bankahrun. Fyrri botn flokksins var 19,5 prósent fylgi í janúar 2016.
Miðflokkurinn mælist með 13,4 prósent fylgi
Í könnun Zenter bætir Miðflokkurinn við sig mestu fylgi eða alls 3,6 prósentum og mælist nú með 13,4 prósent. Samfylkingin mælist með nánast sama fylgi og í síðustu könnun og er nú annar stærsti flokkur landsins með 14,4 prósent fylgi. Píratar sem voru næst stærsti flokkurinn í könnun Zenter í júní missa nú nokkurt fylgi og fá nú 12,3 prósent. Viðreisn bætir lítillega við sig fylgi á milli kannana og mælist nú með 10,6 prósent.
Vinstri grænir mælast með nánast sama fylgi og í síðustu könnun og mælast nú með 12,9 prósent. Framsóknarflokkurinn bætir við sig 1,1 prósentustigi og mælist nú 8,6 prósent.
Fylgi Flokks fólksins heldur áfram að dragast saman og mælist flokkurinn nú með 3,2 prósent en flokkurinn fékk 4,3 prósent í júní. Aðrir flokkar fá 4,6 prósent og þar af fær Sósíalistaflokkurinn 2,7 prósent.
Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn ná ekki til yngsta aldurshópsins
Í niðurstöðum könnunarinnar má sjá að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur aðeins stuðnings 7,2 prósenta hjá yngsta aldurshópnum, sem er 18 til 24 ára. Í öðrum aldurshópum er stuðningur við flokkinn á bilinu 19,3 til 24,1 prósent. Svipað má segja um Miðflokknum en stuðningur við hann er um 4 til 5 prósent í yngstu aldurshópunum en 21,5 prósent hjá 45-54 ára.
Vinstri græn, Píratar og Viðreisn njóta hins vegar mests stuðnings meðal yngstu kjósendanna. Rúm 22 prósent í yngsta aldurshópnum styðja Vinstri græn og rúm 19 prósent Pírata.
Könnunin var framkvæmd 24. til 26. júlí síðastliðinn og var send á tvö þúsund einstaklinga í könnunarhóp Zenter rannsókna. Svarhlutfallið var 45 prósent en gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og bústu.