Mikill meirihluti landsmanna er hlynntur því að stjórnvöld setji frekari skorður við jarðakaupum erlendra aðila á Íslandi. Alls sögðust 84 prósent þeirra sem tóku afstöðu í nýrri könnun Zenter fyrir Fréttablaðið vera mjög eða frekar sammála því að setja þyrfti frekari skorður á jarðakaup erlendra aðila. Þá sögðust aðeins fimm prósent landsmanna vera mjög eða frekar ósammála því.
Nýtt frumvarp um jarðakaup í haust
Greint hefur verið frá því að um 60 jarðir á Íslandi eru í eigu erlendra fjárfesta og viðskiptafélaga þeirra. Þar af á James Arthur Ratcliffe tugi jarða hér á landi og en félag Ratcliffe, Dylan Holding S.A., er móðurfélag 20 annarra félaga sem skráð eru eigendur jarða á Íslandi. Eignarhluturinn er breytilegur en oft er um 100 prósenta hlut að ræða í jörðunum.
Í lok september í fyrra var skipaður starfshópur til að endurskoða lög um eignarhald á bújörðum. Starfshópurinn lagði meðal annars til að skilyrði yrði sett um að eigendur jarða byggju sjálfir á jörðinni og að erlendir eigendur þyrftu að hafa þar lögheimili.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðharra, segir að nú sé vinna í gangi á vegum stjórnvalda í tengslum við tillögur starfshópsins en málefnið varðar marga lagabálka undir ólíkum ráðuneytum. Hann segist jafnframt að vonast sé eftir því frumvarp um jarðakaup verði tilbúið snemma í haust.
„Við erum að skoða hvaða breytingar þurfi að gera á ólíkum lagabálkum, því breytingarnar sem gerðar voru upp úr aldamótum, árin 2003 og 2004, tóku niður allar eðlilegar girðingar hvað þetta varðar og þessu verðum við að breyta,“ segir hann og bætir við „Mín skoðun er sú að við þurfum að ganga eins langt og við komumst.“
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í viðtali í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins fyrr í júní að það væri breiður pólitískur vilji til að takmarka jarðakaup auðmanna hér á landi.
Eldra fólk mjög hlynnt frekari hömlum
Í könnun Zenter sögðust 55,6 prósent þeirra sem tóku afstöðu vera mjög sammála því að stjórnvöld eigi að setja eigi frekar skorður eða kröfur við jarðakaup erlendra aðila. Þá sögðust 28 prósent vera frekar sammála því, 11,3 prósent hvorki né og aðeins 3,5 prósent frekar ósammála og 1,6 prósent mjög ósammála.
Þá eru íbúar á landsbyggðinni líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins til að vera mjög sammála frekari skorðum við jarðakaupum erlendra aðila. Jafnframt er eldra fólk mun líklegra til að vera mjög sammála því að setja eigi frekari skorður en yngri fólk en þó er mikill meirihluti hlynntur hömlum á jarðakaup í öllum aldurshópum.
Könnunin var framkvæmd 24. til 29. júlí síðastliðinn og var send á tvö þúsund einstaklinga í könnunarhóp Zenter rannsókna. Svarhlutfallið var 51 prósent en gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.