Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótar nú tollum á franskt vín. Hótunin kemur í kjölfar nýs lagafrumvarps um skattlagningu á tæknirisum í Frakklandi sem beinist sérstaklega að Google, Apple, Amazon og Facebook.
Trump skrifaði í færslu á Twitter á föstudaginn síðastliðinn að ef einhver ætti að skattleggja tæknirisana fjóra þá væru það Bandaríkin. Hann sagði að bráðlega yrði tilkynnt um aðgerðir gegn „fíflaskap Macron.“ Hann bætti svo við að hann hefði alltaf sagt að bandarískt vín væri betra en franskt.
Auglýsing
Bandarískt vín ekki betra en það franska
Stjórnvöld í Frakklandi ætla að leggja þrjú prósent skatt á tæknirisana fjóra. Didier Guillaume, landbúnaðarráðherra Frakklands, sagði hótun Trump vera „algjörlega fáránlega“ í sjónvarpsútsendingu í Frakklandi í dag. Hann bætti við að bandarískt vín væri ekki betra en franskt vín.
France just put a digital tax on our great American technology companies. If anybody taxes them, it should be their home Country, the USA. We will announce a substantial reciprocal action on Macron’s foolishness shortly. I’ve always said American wine is better than French wine!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 26, 2019
Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, hefur sagt að mikilvægt sé að koma á sanngjörnum skatti á tæknifyrirtæki. Fleiri ríki hafa tilkynnt um svipaðan skatt í kjölfarið, til að mynda Austurríki, Bretland, Spánn og Ítalía.