Frambjóðendur Demókrata fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2020 tókust á í beinni útsendingu í gær. Fyrri helmingur frambjóðenda Demókrata tókst á í gær og mun seinni helmingur frambjóðendanna takast á í kvöld.
Öll spjót beindust að Bernie Sanders og Elizabeth Warren sem hafa mest fylgi þeirra sem tóku þátt í kappræðunum í gær. Mörg hver þeirra sögðu að Sanders og Warren lofuðu upp í ermina á sér með því að lofa ókeypis heilbrigðisþjónustu fyrir Bandaríkjamenn.
Helsti gagnrýnandi Warren og Sanders var John Delaney sem sakaði tvíeykið um að hafa slæma stefnuskrá, lofi öllu fögru og notist við „ævintýra hagfræði“ sem muni valda því að Trump verði aftur forseti.
Warren og Sanders fengu mestan tíma til að tala í kappræðunum í gær. Warren talaði í alls 18 mínútur og 33 sekúndur en Sanders í 17 mínútur og 45 sekúndur.
Trump í kastljósinu
Meðal helsta umfjöllunarefnis kvöldsins var hvers konar frambjóðandi væri nógu sterkur til að fara í framboð á móti Trump.
Pete Buttigieg, einn frambjóðendanna, uppskar mikið lófaklapp við orð sín að sama hvort næsti frambjóðandi demókrata væri vinstrimaður eða íhaldssamur þá myndu Repúblíkanar halda uppi þeim áróðri að frambjóðandinn væri öfga-sósíalisti. Því væri eins gott að berjast fyrir almennri ókeypis heilbrigðisþjónustu.
Marianna Williamson, höfundur, spíritisti og einn frambjóðendanna, sótti hart að gagnrýnendum Warren og Sanders. Hún sagðist ekki skilja hvers vegna þau væru Demókratar þar sem þeim þyki rangt að nota verkfæri ríkisins til að hjálpa fólki. Williamson varaði einnig við „myrkum öflum“ sem Trump væri að vekja upp í Bandaríkjunum.
Búist við hörðum átökum í kvöld
CNN, sjónvarpsstöðin sem varpar kappræðunum beint, skipti frambjóðendunum í tvo hluta með því að draga nöfn þeirra af handahófi. Áður var þó nöfnum frambjóðendanna sem hafa forystu, það eru nöfn Sanders, Warren, Biden og Harris, tekin frá til þess að ekki væru allir frambjóðendurnir sem hafa forystu á sama kvöldi.
Í kvöld munu einmitt Joseph R. Biden og Kamala Harris vera meðal kappræðumanna. Í síðustu kappræðum tókust þau harkalega á, sérstaklega um málefni minnihlutahópa. Búist er við svipuðum átökum í kvöld.