Seinni hluti kappræðna Demókrata, fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2020, var varpað í beinni útsendingu í gær. Öll spjót beindust að fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, Joe Biden. Óvænt stjarna kvöldsins var þó Cory Booker, öldungadeildarþingmaður.
Fyrri helmingur frambjóðenda Demókrata tókst á á þriðjudaginn síðastliðinn. CNN, sjónvarpsstöðin sem varpar kappræðunum beint, skipti frambjóðendunum í tvo hluta með því að draga nöfn þeirra af handahófi. Áður var þó nöfnum frambjóðendanna sem hafa forystu tekin frá, það eru nöfn Sanders, Warren, Biden og Harris, til þess að ekki væru allir frambjóðendurnir sem hafa forystu á sama kvöldi.
Auglýsing
Biden og Harris áttu sviðið
Í gærkvöldi áttu Joseph R. Biden, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, og Kamala Harris, öldungadeildarþingmaður og fyrrum umdæmissaksóknari, sviðið. Í fyrsta hluta kappræðanna fyrr í sumar tókust þau harkalega á, sérstaklega um málefni minnihlutahópa. Því voru öll augu á þeim í gær.
Áhersla Harris er á alhliða heilbrigðisþjónustu fyrir almenning, Medicare-for-All, og sagði að áætlunin yrði innleidd í skrefum næstu tíu árin. Biden gagnrýndi áætlun hennar og sagðist spurja sig hvers vegna það myndi taka svo langan tíma. Harris skaut til baka og sagði áætlun Biden í heilbrigðismálum munu skilja tíu milljón Bandaríkjamanna eftir án heilbrigðisþjónustu. Biden er fylgjandi Obamacare, heilbrigðisáætlun Obama, og segir hana virka vel.
Öll spjót beinast að Biden
Á mánudaginn síðasta studdu 34 prósent kjósenda Demókrata Biden og Harris var með 12 prósent stuðning. Fyrir kappræðurnar í gær var Biden því með langtum meira fylgi en hinir frambjóðendurnir. Það kom þó ekki í veg fyrir að frambjóðendurnir sóttu hart að fyrrum varaforsetanum, en hann náði þó oftast að svara fyrir sig.
Biden var ásakaður af samherjum sínum að vera með of harða innflytjendastefnu, að vera ekki nógu hliðhollur kvenréttindum og að hann væri of gjarn á að bendla sig við Obama. Julian Castro, fyrrum ráðherra húsnæðismála og borgarþróunar, sótti til að mynda hart að Biden vegna fyrri stefnu hans í innflytjendamálum.
Hann var jafnframt gagnrýndur fyrir stefnu sína í íraksstríðinu, viðskiptum og loftslagsmálum. Jay Inslee, einn frambjóðendanna, sagði að ekki gætu Bandaríkin lengur við unað að hafa hvítan þjóðernissinna í Hvíta húsinu. Hann sagði jafnframt að Bandaríkin þyrftu að vera staður sem fólk gæti sótt sér skjól.
Biden gagnrýndi Harris og fyrrum störf hennar sem saksóknari í Kaliforníu. „Hún stakk 1.500 manns í steininn fyrir maríúana og hló svo að því þegar hún var spurð hvort hún hefði reykt maríúana,“ sagði Biden.
Óvænt stjarna: Cory Booker
Óvænta stjarna kvöldsins var Cory Booker, öldungadeildarþingmaður. Booker sem er fimmtugur telst afar framsækinn innan Demókrataflokksins. Booker hefur lengi barist gegn hörðum refsingum fyrir fíkniefnabrot og önnur brot sem ekki eru ofbeldisbrot.
Booker sagði Biden bendla sig við Obama eftir hentugleika en víkja undan þegar stefna fyrrum forsetans væri gagnrýnd. Hann sagði Biden ekki geta valið hvenær hann bendli sig við Obama og hvenær ekki.
Booker sakaði Biden um að hafa árið 1994 verið talsmaður harðrar refsistefnu sem hefði steypt fjölmörgum í steininn. „Núna er fólk í ævilöngu fangelsi fyrir fíkniefnabrot vegna þess að þú stóðst upp og notfærðir þér orðagjálfur um að vera harður gegn glæpum sem varð til þess að fjöldi fólks var kosinn - en eyðilagði samfélög líkt og mitt,“ sagði Booker.
Deilt um Trump
Líkt og í fyrri kappræðunum á þriðjudaginn síðastliðinn var eitt helsta umfjöllunarefnis kvöldsins sitjandi forseti, Donald Trump. Mikið var deilt um hvort framsækinn eða íhaldssamur frambjóðandi Demókrata gæti unnið Trump í forsetakosningunum.
Very low ratings for the Democratic Debate last night — they’re desperate for Trump!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 31, 2019
Í næstu kappræðum munu færri frambjóðendur stíga á stokk. Til þess að komast áfram í næstu umferð þurfa frambjóðendur að hafa náð að minnsta kosti tveggja prósenta stuðningi úr fjórum skoðanakönnunum, auk 130.000 stuðningsaðila.