Fyrrverandi ráðherra og þingmaður Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, telur að það sem hann sagði um Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á Klausturbar í nóvember síðastliðnum eigi sér rætur í vonbrigðum og reiði vegna persónulegs máls. Þetta kemur fram í andsvari hans við áliti siðanefndar Alþingis sem Mbl.is birti í morgun.
„Henni er bara fokking sama um hvað við erum að gera. Hjólum í helvítis tíkina. Það er bara málið. Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni?“ eru orðin sem þingmaðurinn viðhafði á Klausturbar.
Siðanefnd Alþingis telur Gunnar Braga aftur á móti hafa brotið siðareglur með orðum sínum um ráðherrann og tvær aðrar konur, þær Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, og Ragnheiði Runólfsdóttur, afrekskonu í sundi. Siðanefndin telur ummælin um þær allar vera af sömu rótinni sprottin. Þau séu ósæmileg og í þeim felist vanvirðing er lýtur að kynferði þeirra kvenna sem um er rætt. Siðanefnd telur þau einnig til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess, auk þess sem þau sýni Alþingi, stöðu þess og störfum ekki virðingu.
Hvað ef karlmaður hefði átt í hlut?
Gunnar Bragi telur hins vegar alíslenskt að nota þau orð sem þarna voru höfð uppi og hafi ekki til þessa talist ósiðleg en klárlega skammarorð. „Spyrja má hvort minnihluti siðanefndar hefði komist að sömu niðurstöðu ef karlmaður hefði átt í hlut? Ef orðin hundur, asni, drullusokkur, gunga og drusla, skítlegt eðli eða eitthvað þaðan af verra hefði verið notað í staðin fyrir orðið „tík”. Á enskri tungu er orðið m.a. notað yfir óforskammaða manneskju. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá eru þessi orð og mörg önnur notuð til lýsingar á skoðunum þegar þau eru sögð,“ skrifar hann í andsvari sínu.
Hann segir að velta megi því fyrir sér hvort siðanefndin eða forsetarnir hafi kynnt sér orðfæri þingmanna í þingsal. „Er það mat nefndarinnar og hinna ólöglega kjörnu forseta að það að kalla ráðherra „gungu og druslu” sé í lagi nema það teljist til hefðar að nota slík orð? Mega þingmenn nota slíkt orðfæri? En þrátt fyrir að menntamálaráðherra hafi misnotað orðið ofbeldi í pólitískum tilgangi þá er menntamálaráðherra fyrst og fremst stjórnmálamaður sem nýtir sín tækifæri en er ágætis manneskja.“
Man ekki eftir að hafa skrifað undir siðareglurnar
Í bréfi Gunnars Braga segist hann ekki muna eftir því að hafa undirgengist þær siðareglur með undirskrift sinni. „Nú hefur komið í ljós í þessu máli, og öðrum, að fyrirkomulag það sem notast er við er í besta falli galið. Hvergi í lýðræðisríki getur það talist eðlilegt að pólitískir andstæðingar fái vald til að „dæma” andstæðinga sína. Þá skal það enn og aftur tekið fram að undirritaður eða aðrir sem hleraðir voru ólöglega hafa ekki fengið ólöglegu upptökurnar afhentar frá Alþingi þrátt fyrir að hafa óskað ítrekað eftir því. Einnig má benda á ósamræmi milli þess handrits sem Alþingi lét gera og þeirra bréfa sem borist hafa frá siðanefnd.“
Gunnar Bragi fjallar jafnframt um ummæli sín um hinar konurnar. „Siðanefndin kemst að þeirri ótrúlegu niðurstöðu að einkaspjall um hræsni þingkonu vegna MeToo-umræðunnar sé brot á siðareglum. MeToo-umræðan og sú hreyfing sem varð í kringum það varð til þess að opna loks augu margra fyrir alvarleika málsins. Það gefur hins vegar engum leyfi til að baða sig í sviðsljósi á fölskum forsendum. Í ólöglegu upptökunum eru tveir einstaklingar að segja frá miður góðum kynnum sínum af þingkonunni og hvernig hún áreitti þá. Allt það sem þar er sagt stend ég við en vil þó taka fram, líkt og ég gerði við viðkomandi, að notkun á orðinu „nauðgun” var of gróft og var hún beðin afsökunar á þeirri orða notkun.
Það er hreint með ólíkindum að nefndin telji að frásögn af því sem verður ekki skýrt með orðum en sem lýsingu á áreiti sé brot á siðareglum. Er nefndin að hvetja til þess að slík mál séu ekki rædd af þingmönnum við vini eða kunningja ef tilefni er til? Ég tel mikilvægt að hinir ólöglega kjörnu forsetar kynni sér samtalið til hlítar eins og það kemur fyrir í handriti því sem skrifstofustjóri Alþingis lét gera,“ segir hann í bréfinu.
„Ákveðið að krydda söguna nokkuð“
Varðandi orð Gunnars Braga um Ragnheiði Runólfsdóttur, sundkonu, segir hann að þau á Klausturbar hafi verið að ræða fyrrverandi eiginmann hennar en sá starfi nú innan veggja Alþingis.
„Hún hafði sagt frá ömurlegri reynslu sinni í viðtalið við Akureyri vikublað árið 2017. Af handriti Alþingis er ljóst að tilefni umræðunnar var ekki konan sjálf heldur fyrrum eiginmaður hennar. Það er galið ef nefndin telur að gert hafi verið grín að slíku atviki.
Að lokum, virðist svo siðanefndin eða minnihluti hennar hafi áveðið að krydda söguna nokkuð með því að breyta orðalaginu frá handriti Alþingis. Ákveður siðanefndin eða minnihluti hennar að nota orðið „sundkerling” í stað „sunddrottingar” sem er skv. handritinu. Er það augljóslega gert til að gera setninguna meira krassandi,“ segir hann.