Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, undirbúa nú endurskoðun á umgjörð og framkvæmd siðareglna þingmannna. Frá þessu er greint í frétt Fréttablaðsins í morgun.
Í fréttinni er haft eftir Steingrími að vinnan sé á frumstigi, en hann hefur, ásamt Helgu, verið að safna hugmyndum og gögnum vegna málsins. Einblínt verður á framkvæmd reglnanna og farveg kvartana, en ekki er búist við að reglurnar sjálfar verði teknar til endurskoðunar.
„Alvarlegt brot á grundvallarreglum réttarríkja“
Nýlegar framkvæmdir og niðurstöður siðanefndarinnar hafa sætt gagnrýni frá þingmönnum ólíkra flokka, en líkt og Kjarninn fjallaði um fyrr í vikunni töldu þingmenn Miðflokksins Alþingi málsmeðferð siðanefndar fela í sér alvarlegt brot á lögum og grundvallarreglum réttarríkja. „Í stað þess að verja þolendur alvarlegs glæps hafa fulltrúar löggjafans leitað allra leiða til að refsa þolendunum,“ skrifuðu þingmennirnir í andsvörum við áliti nefndarinnar.
„Fáránleikinn og samtryggingin koma til bjargar“
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gagnrýndi einnig nýlega málsmeðferð kvörtunar sinnar á þær niðurstöður nefndarinnar að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hafi brotið gegn siðareglum með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Þar tók forsætisnefnd Alþingis niðurstöður siðanefndar til skoðunar að ósk Björns en samþykkti þær svo í síðustu viku. Í gagnrýni Björns á málið segir hann „fáránleikann og samtrygginguna koma til bjargar fyrir elítuna.“