Vísindamenn og stjórnmálamenn á umhverfisþingi Sameinuðu Þjóðanna eru sagðir undirbúa skýrslu þar sem eyðing skóga og framræsing mýra til landbúnaðar eru harðlega gagnrýndar. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.
Samkvæmt fréttinni mun skýrsla umhverfisþingsins verða tilbúin seinna í vikunni og mun hún verða ein áreiðanlegasta skýrsla sem gerð hefur verið um áhrif landnýtingar á loftslagsmál. Vísindamennirnir sem eru á þinginu vilja meina að jarðarbúar muni standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum í náinni framtíð þar sem margar neysluvörur, líkt og plast, timbur og matvörur, muni krefjast aukins lands til ræktunar.
Framræsing mýra verður stórt umfjöllunarefni skýrslunnar, að mati BBC. Skýrsluhöfundar telja að verndun votlendis sé nauðsynlegur liður í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun, auk verndunar náttúrulegra skóga og minnkun kjötneyslu. Ráðleggingar höfundanna fela einnig í sér að kenna hálfum milljarð bænda vistvænni tegundir af landnýtingu.