Frönsk yfirvöld hafa tímabundið stöðvað vinnu við Notre Dame dómkirkjuna í París í kjölfar tilkynninga um blýeitrun þeirra sem unnu að viðgerðum hennar. Kirkjan brann að hluta í apríl síðastliðnum og hafa frönsk yfirvöld unnið að viðgerðum við hana síðan. Talið er að fjölmargir verkamen sem unnið hafi að viðgerðum kirkjunnar auk íbúa í nágrenni hennar hafi orðið fyrir blýeitrun. Le Monde greinir frá.
Stéttafélög verkamannanna sem vinna að viðgerðunum, auk ýmissa frjálsra félagasamtaka, kalla eftir því að kirkjan verði einangruð vegna heilbrigðisváar. Frönsk yfirvöld ætla sér að fara í aðgerðir til að tryggja öryggi þeirra sem vinna að viðgerðum kirkjunnar áður en sú vinna hefst að nýju og borgarstjóri Parísar hefur lofað því að sporna gegn aukinni mengun frá kirkjunni.
Auglýsing
400 tonn af blýi í þaki kirkjunnar
Blýeitrunin stafar af þeim 400 tonnum af blýi sem voru í þaki kirkjunnar og losnuðu við brunann. Ýmis umhverfisverndarsamtök krefjast þess að kirkjan verði einangruð í heild sinni þar sem núverandi aðstæður ógni íbúum í nágrenni kirkjunnar auk þeirra vinnumanna sem vinni að viðgerðum kirkjunnar.
Verkalýðssamtök í Frakklandi krefjast þess einnig að yfirvöld láti heilsu verkamanna og íbúa í forgang þó það þýði að viðgerðum kirkjunnar verði lokið síðar en áætlað var. Samtökin, CGT, segja að svæðið umhverfis kirkjuna sé afar mengað. Sérfræðingarnir sem sáu um að fjarlægja gler kirkjunnar eftir bruna hennar eru þeir sem mest urðu fyrir blýeitruninni og var hlutfall blýs í blóði þeirra sérstaklega hátt.
Viðgerðir hefjast að nýju um miðjan ágúst
Sérfræðingar heilbrigðisyfirvalda í Frakklandi hafa farið um fjórða, fimmta og sjötta hverfi Parísar til að taka sýni. Sýnin verða notuð til þess að greina hversu víðtæk blýmengunin sé.
Viðgerðir kirkjunnar munu hefjast að nýju um miðjan ágúst. Yfirvöld í Frakklandi segja að þá muni vera búið að koma á nýjum öryggisbúnaði sem muni tryggja öryggi bæði þeirra sem vinna að viðgerðum kirkjunnar og íbúum í nágrenni hennar.