Kínversk stjórnvöld harðneita að þau haldi uppi fölsku gengi á gjaldmiðli sínum, en virði kínverska Yuansins gegn Bandaríkjadal náði tíu ára lágpunkti í gær. Kínversk stjórnvöld segja í tilkynningu að ásakanir bandarískra stjórnvalda um að Kína haldi uppi fölsku gengi beri vott af einhliða málefnaflutningi og einangrunarhyggju, jafnframt sem það skaði núverandi heimskipan gríðarlega.
Þá eru Bandaríkin harðlega gagnrýnd fyrir að halda nokkru slíku fram og orðræða bandarískra stjórnvalda sögð bæði sakað Bandaríkin sjálf sem og önnur ríki.
Auglýsing
Ásakanirnar geti skaðað núverandi heimsskipan
Kínversk yfirvöld segja veikinguna vera vegna markaðsafla, en samkvæmt blaðamönnum New York Times er það pólitísk ákvörðun að ríkisstjórnin hafi leyft gjaldmiðli sínum að veikjast svona mikið. Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýndi veikinguna harðlega á Twitter í gær og ásakaði Kína um að halda uppi fölsku gengi á gjaldmiðlinum sínum.
China is intent on continuing to receive the hundreds of Billions of Dollars they have been taking from the U.S. with unfair trade practices and currency manipulation. So one-sided, it should have been stopped many years ago!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 5, 2019
Alþýðubanki Kína og kínversk stjórnvöld hafa birt á vef Xinhua, kínverskum ríkismiðli, tilkynningu í kjölfarið. Í henni segir að kínverskum stjórnvöldum þyki það mjög miður að vera stimplað sem ríki sem stjórni gengisbreytingum sínum eða haldi uppi fölsku gengi.
Ásakanirnar séu duttlungafullar og beri vott af einhliða málefnaflutningi og einangrunarhyggju, jafnframt sem það skaði núverandi heimsskipan gríðarlega. Því er enn fremur haldið fram að ásakanirnar hafi afar slæm áhrif á heimshagkerfið og fjármálakerfi heimsins.
Segjast fara eftir markaðslögmálum
Í tilkynningunni segir að kínversk stjórnvöld fari eftir markaðslögmálum og að gengi Yuansins fari eftir lögmálum framboðs og eftirspurnar en sé ekki stjórnað af kínverskum stjórnvöldum. Síðustu átta ár hafi gengi kínverska Yuansins fallið vegna breytinga í heimshagkerfinu. Frá árinu 2018 hafi Bandaríkin stöðugt ýtt undir deilur hvað varðar viðskipti, segir í tilkynningunni. Kína hafi hins vegar reynt að forðast deilur eftir bestu getu.
„Bandaríkjunum er sama um staðreyndir, sama þótt þau klíni á Kína að það „stjórni gengisbreytingum“ sínum, þá skaðar sú hegðun Bandaríkin sjálf sig og aðra, og Kína er afar mótfallið því,“ segir í tilkynningunni. Þá segir einnig að Kína muni halda áfram að fara eftir reglum framboðs og eftirspurnar.
„Þetta mun ekki einungis skaða fjármálastöðugleika heimsins alvarlega, skapa óróa í fjármálakerfinu, heldur mun þetta einnig tefja fyrir um alþjóðaviðskiptum og bata efnahagskerfis heimsins.“
Kínverskar vörur samkeppnishæfari
Yuanið hefur sögulega verið undir ströngu eftirliti kínverskra stjórnvalda sem haldið hafa gengi gjaldmiðilsins stöðugu með tíðum ríkisinngripum. Í gær veiktist gjaldmiðillinn hins vegar um eitt prósent gagnvart Bandaríkjadal og er því orðinn veikari en því sem nemur einum sjöunda af dollara í fyrsta skipti frá heimskreppunni árið 2008.
Með veikingu Yuansins verða kínverskar útflutningsgreinar samkeppnishæfari, en það dregur úr áhrif verndartollana sem Bandaríkisstjórn hafa sett á þarlendar vörur. Veikingin gæti því leitt til enn frekari tollahækkana af hálfu Bandaríkjastjórnar, sem myndi aftur leiða til meiri veikingar. Slík dómínóáhrif myndu hafa víðtæk áhrif meðal kínversks almennings og annarra ríkja í Suð-Austur Asíu sem flytja einnig út vörur til Bandaríkjanna, þar sem veikara gengi myndi leiða til verðbólgu vegna verðhækkana á innfluttum vörum og þar af leiðandi minni kaupmátt.
Fjárfestar virðast viðbúnir harðari átökum milli Kína og Bandaríkin eftir veikinguna í gær, en Standard og Poors og FTSE vísitölurnar lækkuðu báðar um tvö og hálft prósent og Nikkei vísitalan í Japan lækkaði um tæp tvö prósent