Bílaumboðið BL ætlar að bjóða viðskiptavinum sínum bílalán á föstum 3,95 prósent óverðtryggðum vöxtum kaupi þeir bíla frá umboðinu. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þeir vextir sem BL ætlar að bjóða eru næstum helmingi lægri en lægstu vextir sem aðrir lánveitendur sem lána til bílakaupa eru tilbúnir að lána sínum viðskiptavinum á. Samkvæmt samanburði á bílalánum á síðunni Aurbjörg.is eru lægstu vextir sem voru í boði á markaðnum 6,95 prósent breytilegir hjá Arion banka, Ergo og Lykli ef lánshlutfallið var 50 prósent eða minna.
Ef lánshlutfallið var hærra þá hækkuðu vextirnir og ef viðkomandi þurfti til að mynda að taka 80 prósent lán til fjögurra ára voru skaplegustu vextir sem honum stóðu til boða 7,45 prósent hjá ofangreindum þremur fjármálafyrirtækjum. Landsbankinn býður hærri vexti en þetta, eða 7,75 prósent óverðtryggða breytilega vexti.
Lánin sem BL ætlar að bjóða upp á verða í samstarfi við Lykil fjármögnun, verða í boði fyrir alla nýja bíla sem seldir verða hjá umboðinu, þeim fylgja engin lántökugjöld, ekkert hámark er á upphæðinni sem lánað er og veitt verða allt að 90 prósent lán. Lánstíminn verður þrjú til sjö ár en eiginfjárkrafan eykst eftir því sem lánstíminn lengist.
Skáka húsnæðislánunum
Vextirnir sem BL ætlar að bjóða upp á eru merkilegir í stærra samhengi vegna þess að þeir eru einnig umtalsvert lægri en lægstu óverðtryggðu vextir sem standa lántökum til boða við íbúðarkaup. Almennt hafa bílalán verið dýrari en húsnæðislán.
Eftir þá breytingu eru þeir vextir hagstæðustu föstu óverðtryggðu vextir sem standa íslenskum íbúðarkaupendum til boða. Birta lífeyrissjóður býður hins vegar upp á betri breytilega óverðtryggða vexti til þeirra sjóðsfélaga sem uppfylla skilyrði til lántöku. Þeir geta fengið allt að 65 prósent af kaupverði á 4,85 prósent vöxtum hjá þeim sjóði. Sú breyting átti sér stað í byrjun júlí.
Vextirnir sem BL býður sínum viðskiptavinum til bílakaupa eru tæplega 19 prósent lægri en vextir Birtu.