Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, heldur til El Paso í Texas í dag, þremur dögum eftir að 21 árs árásarmaður myrti 22 og slasaði 24 til viðbótar í Walmart stórmarkaði. Jafnframt mun hann halda til Dayton í Ohio fylki þar sem níu voru myrtir í skotárás, einungis 13 klukkustundum eftir árásina í El Paso. Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir heimsókn sína og hann sagður ekki velkominn vegna hatursorðræðu sinnar. Til að mynda hefur Barack Obama, fyrrum forseti Bandaríkjanna, gagnrýnt Trump.
Hinir grunuðu árásarmenn árásanna tveggja eru báðir ungir hvítir karlmenn og talið að þeir séu báðir kynþáttahatarar, þó yfirvöld hafi enn ekki staðfest það. Fjölmargir íbúar El Paso og Dayton eru ósáttir við heimsókn Trump vegna ummæla hans um innflytjendur og litað fólk. Gagnrýnendur telja margir hverjir að ummæli forsetans hafi ýtt undir árásirnar.
Heimsóknin harðlega gagnrýnd
Barack Obama, fyrrum forseti Bandaríkjanna, sagði í opinberri yfirlýsingu að Bandaríkjamenn ættu að afneita orðum leiðtoga sem ýta undir ótta og hatur og geri rasísk ummæli að venju. Beto O’Rourke, einn forsetaframbjóðenda Demókrata sem er frá El Paso, hefur einnig harðlega gagnrýnt Trump fyrir heimsókn sína til borgarinnar. Hann sagði Trump hafa hjálpað til að skapa aðstæður líkt og áttu sér stað í El Paso á laugardaginn og hann hafi því ekki rétt á að heimsækja borgina.
Will be going to Dayton, Ohio and El Paso, Texas, tomorrow to meet with First Responders, Law Enforcement, and some of the victims of the terrible shootings.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 6, 2019
Nan Whaley, borgarstjóri Dayton, hefur efnt til mótmæla gegn Trump vegna byssulöggjöfar hans og segir Trump ekki velkominn. Hún sagði orðræðu Trump hafa verið sársaukafull fyrir marga í samfélagi hennar og hvatti fólk til að láta óánægju sína í ljós.
Veronica Escobar, þingmaður frá El Paso, segir Trump ekki velkominn til El Paso. Hún sagði orðræðu Trump hafa gert fólk af rómönsk-amerískum uppruna og innflytjendur ómennskt. „Orð hafa afleiðingar. Forsetinn hefur gert mig og mitt fólk að óvininum,“ sagði Escobar. „Hann hefur sagt landinu að við séum fólk sem beri að óttast, sem beri að hata.“
Borgarstjóri El Paso, Dee Margo, sagðist munu bjóða Trump velkominn til El Paso en varaði hann við því að halda uppi röngum staðhæfingum um borgina. Trump hefur látið þau orð falla að áður en landamæragirðingu hafi verið komið upp í borginni hafi hún verið ein sú hættulegasta í Bandaríkjunum.
Repúblíkanar í El Paso hafa sakað Demókrata um að gera heimsókn Trump að pólitískum viðburði sem hagnist þeim sjálfum.
Yfirlýsing árásarmannsins birt á netinu
Hinn 21 árs hvíti árásarmaður í El Paso er í haldi lögreglu í Texas, en þarlend yfirvöld hafa ekki gefið út nafn hans. Talið er að árásarmaðurinn í hafi birt á netinu yfirlýsingu sína sem hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða árás sína og sé full andúðar á innflytjendum. Árásin er jafnframt rannsökuð sem mögulegur hatursglæpur.
Í yfirlýsingunni skrifar höfundurinn að um „innrás“ fólks frá Mexíkó til Bandaríkjanna sé að ræða. Nokkuð sem Trump hefur sagt fjölmörgum sinnum í ræðum sínum. Trump hefur ekki rætt yfirlýsingu árásarmannsins opinberlega og hefur Trump ekki viljað herða byssulöggjöf í Bandaríkjunum þannig að skoðað verði bakgrunn fólks sem vill kaupa skotvopn.
Talið er að árásarmaðurinn hafi birt skjalið á heimasíðu 8chan, öfga-hægri spjallsíðu. Síðan er þekkt fyrir afar bíræfin rasísk ummæli. Verði staðfest að árásarmaðurinn í El Paso hafi skrifað hina umræddu yfirlýsingu væri það þriðja yfirlýsingin um fyrirhugaða árás sem birtist á 8chan á innan við fimm mánuðum.
Samkvæmt the Guardian stendur í yfirlýsingunni að árásin eigi að vera „svar við innrás fólks af rómönskum uppruna í Texas.“ Jafnframt sem höfundur skjalsins vildi skipta Bandaríkjunum upp í mismunandi svæði fyrir mismunandi kynþætti.
Bæði árásarmaðurinn í Christchurch og árásarmaður sem réðst á söfnuðarhús gyðinga í Poway, Kaliforníu, birtu yfirlýsingu sína á 8chan fyrir árásina, samkvæmt the Guardian.
Trump leggur til dauðarefsingu
Í kjölfar árásanna um helgina ávarpaði Donald Trump þjóðina í beinni útsendingu. Hann sagði að hann og forsetafrúin biðji fyrir fórnarlömbunum, fjölskyldum þeirra og þeim sem komust af. Þau muni standa með þeim um aldur og ævi.
Hann sagðist leggja til nýja löggjöf þar sem fjöldamorðingjar og þeir sem fremji hatursglæpi standi frammi fyrir dauðarefsingu. Dauðarefsingin verði fljót, skilvirk og án óþarfa tafa.
Today, I am also directing the Department of Justice to propose legislation ensuring that those who commit hate crimes and mass murders face the DEATH PENALTY - and that this capital punishment be delivered quickly, decisively, and without years of needless delay. pic.twitter.com/BDXdpelK7F
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 5, 2019
Trump sagði árásirnar tvær vera illar árásir sem brengluð skrímsli hafi framið. Þær séu jafnframt glæpur gegn mannkyninu.