Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, telur að hægt sé að endurskoða siðareglur fyrir alþingismenn, þrátt fyrir að margt hafi „mistekist hrapallega“ í ferlinu hingað til. Þetta sagði hún í samtali við Kjarnann á dögunum.
Nýlegar niðurstöður siðanefndar Alþingis, sem forsætisnefnd staðfesti síðan, hafa vakið mikið viðbrögð hjá almenningi og öðrum þingmönnum. Margir hafa bent á að endurskoða þurfi ferlið í kringum siðareglur og siðanefnd til þess að endurvekja traust á þessum fyrirbærum.
Helga Vala telur þó að ekki sé hægt að byggja upp traust með því einu að breyta siðareglum. „Hvert og eitt okkar stöndum og föllum með trúverðugleikanum,“ segir hún.
Nýlega kom fram í fréttum að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, undirbúi nú endurskoðun siðareglnanna í samvinnu við Helgu Völu.
Í samtali við Vísi þann 3. ágúst síðastliðinn sagði hann að þau væru búin að kasta á milli sín hugmyndum og hefðu verið að sanka að sér gögnum. „Nú er komin ákveðin reynsla á framkvæmdina og búið að reyna á ýmislegt og það er nú aðallega sú umgjörð sem við erum að skoða og framkvæmd reglnanna,“ sagði hann. Steingrímur sagðist ekki eiga von á því að sjálfar hátternisreglurnar yrðu teknar upp heldur aðallega framkvæmd þeirra og farvegur kvartana.
Ljóst að verklagið gengur ekki upp
Helga Vala staðfestir í samtali við Kjarnann að til stendur að endurskoða ferlið og segir hún að Steingrímur hafi haft samband við sig síðasta vetur til þess að fara yfir málin. Hún segir að henni hafi strax orðið ljóst að verklagið í kringum siðareglurnar gangi ekki upp.
Hún segir að Íslendingar þurfi í raun ekki að finna upp hjólið. „Siðareglur okkar eru byggðar á reglum Evrópuþings sem þó eru nokkuð frábrugðnar og má skoða hvort leita megi meira þangað. Þá hef ég áður nefnt að ÖSE hefur gefið út ítarlegar leiðbeiningar um gerð og framkvæmd siðareglna fyrir þjóðþing aðildarríkjanna og tel ég einboðið að fara vel yfir þær,“ segir hún.
Flókið að setja viðurlög við broti
„Við þurfum að kanna aðkomu annarra stjórnmálamanna og forsætisnefndar,“ segir hún en bætir því þó við að þessar samræður um reglurnar séu enn algjörlega óformlegar. „Þetta fer ekki á formlegan stað fyrr en forsætisnefnd fær drög að tillögum um breytingar og þegar drög að þingsályktunartillögu fer til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.“
Helga Vala bendir á að það að setja viðurlög við broti á siðareglum sé flókið út af pólitískri stöðu. „Það væri hægt að senda fólk í leyfi eða látið það ekki gegna trúnaðarstörfum innan þingsins. Það væri hugmynd til að velta fyrir sér,“ segir hún.