„Oft hefur verið haldið fram röngum og villandi fullyrðingum um málið, meðal annars í bláa bæklingnum sem fylgdi Morgunblaðinu í síðustu viku.“ Þetta skrifar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Þar með hafa Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður hans, og nú ritari flokksins tjáð sig með afgerandi hætti um afstöðu flokksins í málefnum þriðja orkupakkans um helgina.
Blái bæklingurinn sem Áslaug minnist á fylgdi Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag, þegar það var í aldreifingu. Bæklingurinn ber nafnið „Kjósum um orkupakkann,“ og í honum sagði að með orkupakkanum muni virkjunum fjölga. Þar er fólk jafnframt hvatt til að skora á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að setja orkupakkann í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Bæklingurinn er á vegum Guðmundar Franklín Jónssonar, fyrrverandi formanns Hægri grænna.
Ekkert afsal fullveldis
Í grein Áslaugar í dag segir í málflutningi andstæðinga þriðja orkupakkans sé gefið í skyn að
markmið hans feli í sér að Íslendingum væri skylt að leggja sæstreng til Evrópu. „Það er alfarið á hendi Íslands að taka ákvörðun um lagningu sæstrengs eins og fram kom í samdóma áliti fræðimanna sem komu fyrir utanríkismálanefnd. En til þess að taka af öll tvímæli hefur verið lagt fram lagafrumvarp þar sem kveðið er á um að ekki verði ráðist í tengingu með sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis.“
Þá segir hún skýrt að orkupakkinn feli ekki í sér afsal á forræði yfir auðlindinni. Takmarkað og afmarkað valdaframsal eigi einungis við um tiltekin afmörkuð málefni ef Ísland ákveður að tengjast sæstreng til Evrópu. „Rétt eins og segir í minnisblaði frá utanríkisráðuneyti þegar Gunnar Bragi Sveinsson gegndi embætti utanríkisráðherra: „Rétt er að hafa í huga varðandi stofnunina ACER og valdheimildir hennar, að á meðan að Ísland er einangrað raforkukerfi, þ.e. ekki með tengingu í nein önnur raforkukerfi t.d. með sæstreng, þá getur ACER ekki tekið ákvörðun gegn Íslandi.“ En ef Alþingi tæki ákvörðun um að tengjast landi innan ESB, sem Bretland verður til dæmis ólíklega innan skamms, myndi virkjast tveggja stoða fyrirkomulagið þannig að Eftirlitsstofnun EFTA tæki ákvörðunina en ekki ACER. Því er í engu tilviki um að ræða framsal til stofnana Evrópusambandsins, hvort sem við tengjumst eða ekki. Margt af því sem rætt hefur verið síðustu misserin mun nýtast vel við vinnu við gerð orkustefnu fyrir Ísland en alltof mikið af því á ekki við um þriðja orkupakkann og er til þess fallið að afvegaleiða umræðuna.“
Bjarni og Þórdís Kolbrún einnig afgerandi
Bjarni Benediktsson ræddi orkupakkann á fjölmennum fundi þingflokks Sjálfstæðisflokks í Valhöll á laugardag. Þar sagði hann meðal annars, samkvæmt frétt RÚV, að óánægja meðal Sjálfstæðismanna með þriðja orkupakkann breyti engu um þá stefnu flokksins að leiða þriðja orkupakkann í lög. „Nei, hún breytir ekki neinu um stefnu þingflokksins,“ sagði Bjarni.
Um helgina gagnrýndi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ræðu Bjarna. Formaður Sjálfstæðisflokksins svaraði honum á Facebook og sagði ríka ástæðu fyrir því að segja Sigmund Davíð og Gunnar Braga Sveinsson, varaformann Miðflokksins, hafa skipt um skoðun í orkupakkamálinu. Sigmundur Davíð væri að beita blekkingu eða í besta falli útúrsnúningum þegar hann segir þá ekki hafa innleitt pakkann á þeim tíma sem hann var forsætisráðherra og Gunnar Bragi utanríkisráðherra.
Þar sagði enn fremur að í þriðja orkupakkanum fælist ekkert afsal á forræði yfir auðlindinni. „Ekkert raunverulegt valdaframsal á sér stað, vegna þess að Ísland er ótengt. Engar erlendar stofnanir öðlast valdheimildir hér á landi við innleiðinguna. Allir fræðimenn sem fjallað hafa um málið eru sammála um að innleiðingin standist stjórnarskrá. Þetta eru staðreyndir málsins. Fremur en að hverfa aftur til hafta og einokunar ættum við að mínu viti að horfa til framtíðar og freista þess að nýta kosti samkeppninnar enn betur en hingað til, í þágu neytenda, ásamt því að tryggja betur afhendingaröryggi og auka jafnræði varðandi dreifingarkostnað raforkunnar, eins og við höfum fullar heimildir til að gera.“
Þú, lesandi góður, getur valið af hverjum þú kaupir rafmagn. Þú getur farið á netið hvenær sem er, gert verðsamanburð...
Posted by Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir on Sunday, August 11, 2019