Öllu flugi til og frá Hong Kong hefur nú verið frestað eftir að þúsundir mótmælenda flykktust á flugvöll Hong Kong. Vegir sem liggja að flugvellinum eru tepptir og öll bílastæði full, samkvæmt þarlendum yfirvöldum.
Þetta er tíunda vikan sem mótmælin standa yfir. Kínversk stjórnvöld hafa sagt suma af róttækari mótmælendunum vera hryðjuverkamenn. Þau saka mótmælendur um að beita lögreglumenn ofbeldi og koma óstöðugleika á samfélagið í Hong Kong. Sumir mótmælendur hafa til að mynda hent bensínsprengjum að lögreglu og beint leysigeisla að augum lögreglumanna.
Stór alþjóðaflugvöllur
Meira en 160 flugum hefur verið frestað frá Hong Kong. Flug sem eru nú þegar á leið til Hong Kong hafa fengið leyfi til að lenda en síðari flugum verið frestað. Árið 2018 fóru 75 milljónir farþega um alþjóðaflugvöllinn í Hong Kong frá meira en 120 flugfélögum. Alls voru um 428.000 flug skráð til og frá vellinum.
Mótmælin hófust snemma í júní og flykktust hundruð þúsunda íbúa á götur Hong Kong. Síðar í mánuðinum voru mótmælendurnir um tvær milljónir. Ástæða mótmælanna var upphaflega lagasetning sem að sögn mótmælenda hefði getað auðveldað framsal á almennum borgurum Hong Kong til Kína og myndi gera kínverskum stjórnvöldum létt fyrir að rétta yfir fólki á meginlandi Kína í stað fyrir í Hong Kong.
Allt hófst með einum manni
Málið á upphaf sitt að rekja til máls í Taiwan árið 2018, þar sem maður að nafni Chan Tong-Kai var sakaður um að hafa myrt kærustu sína, að því er kemur fram í fréttSouth China Morning Post. Chan flúði til Hong Kong og var handtekinn í kjölfarið. Ekki var þó hægt að senda hann til Taiwan þar sem ekki ríkir samningur á milli ríkjanna um flutning fanga.
Því brugðust yfirvöld Hong Kong við með því að leggja fram lagasetningu sem leyfir stjórnvöldum Hong Kong að flytja fanga til annarra ríka, þó að ekki liggi fyrir samningur um flutning fanga.
Mótmælendur óttast að myndist lagaleg glufa þegar fangar séu fluttir til Taiwan, vegna þess að Kína gerir tilkall til eyjarinnar. Málið er svo umdeilt að til líkamlegra átaka kom í löggjafarráði Hong Kong.
Hinum umdeildu framsalslögum í Hong Kong var síðar frestað í kjölfar mótmælanna. Carrie Lam, leiðtogi yfirvalda í Hong Kong, hefur beðist afsökunar á ástandinu en margir mótmælendur eru enn ósáttir, enda hafa lögin ekki verið formlega dregin til baka. Ýmsir gagnrýnendur vilja að hún segi af sér.
Regnhlífamótmælin skýrt í minni
Nú eru liðin 5 ár frá Regnhlífamótmælunum 2014. Þau mótmæli hófust vegna áhyggja af því að kínversk stjórnvöld hefðu of mikil áhrif á hver gæti boðið sig fram til kosninga í Hong Kong.
Mótmælendur flykktust í þúsundum talið á götur Hong Kong og kröfðust sjálfræðis og höfnuðu afskiptum kínverskra stjórnvalda.
Hægt er að fylgjast með framgangi mála núverandi mótmæla á Twitter undir merkinu #ExtraditionBill