Michele Ballarin, sem gerði kaupsamning um valdar eignir úr þrotabúi WOW air fyrir nokkru sem síðan var rift, er nú stödd hérlendis í þeim erindagjörðum að reyna aftur við stofnun nýs flugfélags á grunni WOW air. Hérlendis eru fulltrúar hennar almannatengillinn Gunnar Steinn Pálsson og lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson. Frá þessu er greint á fréttavefnum Túristi.is, sem sérhæfir sig í ferðaþjónustutengdum fréttum.
Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra þrotabús WOW air, segir í samtali við Kjarnann að hún hafi þó enn ekki sett sig í samband við þrotabúið á ný.
Fréttablaðið greindi frá í í júlí að gengið hefði verið frá kaupum á öllum eignum þrotabús WOW air sem tengjast flugrekstri. Um var að ræða bæði vöru- og myndmerki WOW air, WOW lénin, flugrekstrarbækur, bókunarkerfi, hugbúnað, söluvagna, sölutölvur, einkennisfatnað ásamt stærstum hluta varahlutalagers og verkfæra. Síðar kom í ljós að hinn væntanlegi kaupandivar um Michele Ballarin.
Í lok júlí var kaupunum hins vegar rift vegna þess að síendurtekið hafði dregist að borga fyrstu greiðslu samkvæmt kaupsamningi sem gerður var milli félags Ballarin og þrotabúsins. Heildarumfang viðskiptanna átti að vera ríflega 180 milljónir króna og sú greiðsla að greiðast í þremur nokkuð jöfnum áföngum.