Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hefur boðið Seðlabanka Íslands að greiða sér fimm milljónir króna í bætur vegna kostnaðar og miska sem málarekstur bankans gegn Samherja og Þorsteini Má sjálfum hefur kostað. Málareksturinn var vegna ætlaðra brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Seðlabankinn hefur hafnað kröfunni með bréfi sem sent var til Samherja 30. júlí síðastliðinn. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti.
Í bréfinu, sem Markaðurinn er með undir höndum, segir að ekki verði séð að Seðlabankinn hafi með saknæmum eða ólöglegum hætti haft afskipti af Þorsteini Má vegna málsins né hafi málsmeðferð bankans brotið á réttindum hans með þeim hætti að bótaskylda hafi skapast.
Málarekstur Seðlabankans gegn Samherja hófst með húsleit í höfuðstöðvum Samherja 27. mars 2012, en um 25 starfsmenn gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands og embættis sérstaks saksóknara tóku þátt í aðgerðunum.
Í janúar 2019 var birt álit Tryggva Gunnarssonar, Umboðsmanns Alþingis, þar sem hann fjallaði um svör Seðlabankans vegna stjórnvaldssektar sem lögð var á Þorstein Má. Það var mat Umboðsmanns að svar Seðlabankans hafi ekki verið lögum samkvæmt.