Stjórn stéttarfélagsins VR samþykkti í kvöld, með öllum greiddum atkvæðum, að gerast fjárhagslegur bakhjarl neytenda í baráttunni gegn smálánum.
Í því mun felast að VR, í samstarfi með Neytendasamtökunum, mun leggja út fyrir kostnaði vegna lögfræðivinnu og dómsmála sem þarf að höfða til að koma í veg fyrir að smálánafyrirtæki og þeir sem sinna innheimtu fyrir þau geti haldið áfram að innheimta okurvexti frá lántökum.
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, myndi leggja fram tillögu þess efnis fram á fundinum. Hann sagði í samtali við Kjarnann að markmiðið með tillögunni væri að algjört stöðvun verði á greiðslum á öðru en höfuðstól til smálánafyrirtækja eða innheimtufyrirtækja sem starfi fyrir þau.
Stuðningur VR mun ná til allra smálánataka sem þurfi á honum að halda, ekki einungis félagsmanna VR. Verið er að meta kostnaðinn við aðgerðina en fyrir liggja ákveðna hugmyndir um kostnað við fyrstu skref og við að halda úti lögmanni til að taka við fyrirspurnum frá þeim sem hyggjast nýta sér aðgerðina.