Hvorki Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) né Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem eru báðir á meðal stærstu eigenda HB Granda, hafa tekið ákvörðun um hvort að þeir muni greiða atkvæði með þvi að félagið kaupi allt hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, sem og þjónustufélagi á Íslandi, af Útgerðarfélagi Reykjavíkur á 4,4 milljarða króna. Útgerðarfélag Reykjavíkur er stærsti hluthafi HB Granda og forstjóri HB Granda, Guðmundur Kristjánsson, er stærsti hluthafi Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Gildi lífeyrissjóður, sem er einnig stór hluthafi í HB Granda, tilkynnti í gær að sjóðurinn muni greiða atkvæði gegn kaupunum á hluthafafundi sem fram fer á fimmtudag. Í tilkynningu vegna þess kom meðal annars fram að viðskipti við tengda aðila yrðu að vera hafin yfir allan vafa. Þær fyrirætlanir sem fyrir liggi séu ekki trúverðugar og sjóðurinn telji að ekki hafi verið sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til þess að ná fram sömu markmiðum, mögulega með minni tilkostnaði.
Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar og staðgengill forstjóra Gildis lífeyrissjóðs, sagði í samtali við Kjarnann í gær að „umfangsmikil og ítrekuð viðskipti stærsta hluthafa HB Granda við félagið eru óheppileg að okkar mati. Slíkt er fordæmalaust á innlendum hlutabréfamarkaði.“
A og B-deild LSR eru samanlagt stærsti eigandinn í lífeyrissjóðahópnum með alls 15,15 prósent eignarhlut. A-deildin á 11,37 prósent hlut en B-deildin 3,78 prósent. Í svari við fyrirspurn Kjarnans um afstöðu sjóðsins til kaupanna á sölufélögunum kom fram að málið væri enn í skoðun.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 12,53 prósent hlut í HB Granda. Í svari frá sjóðnum vegna fyrirspurnar um afstöðu hans til málsins sagði að hann væri að afla upplýsinga, meðal annars með fyrirspurnum til HB Granda, Þá hafi starfsmenn sjóðsins átt fund með fulltrúum félagsins. „Endanleg ákvörðun verður tekin að fengnum öllum þeim upplýsingum sem unnt er að afla. Við áskiljum okkur jafnframt rétt til að kveða ekki upp úr um málið fyrr en til atkvæðagreiðslu kemur.“
Ætlað kaupverð á sölufélögunum er, líkt og áður sagði, 4,4 milljarðar króna og lagt hefur verið til að kaupverðið verði greitt með 7,3 prósent aukningu á hlutafé HB Granda. Verði kaupin samþykkt mun hlutur Útgerðarfélags Reykjavíkur í HB Granda hækka úr 35,01 prósent í 42,31 prósent í HB Granda. Við það verður eignarhlutur Útgerðarfélags Reykjavíkur stærri en sameiginlegur eignarhluti lífeyrissjóðanna fjögurra sem eiga stóran hlut í HB Granda.
Fyrir hluthafafundinum á morgun liggur einnig fyrir breytingartillaga um að breyta nafni HB Granda í Brim, sem er það nafn sem Útgerðarfélag Reykjavíkur bar árum saman og Guðmundur Kristjánsson er oftast kenndur við.