Umfangsmikil og ítrekuð viðskipti við stærsta hluthafa HB Granda óheppileg

Forstöðumaður eignastýringar Gildis segir að ítrekuð viðskipti HB Granda við stærsta hluthafann sinn séu fordæmalaus á innlendum hlutabréfamarkaði og óheppileg. Til stendur að HB Grandi kaupi sölufélög af Útgerðarfélagi Reykjavíkur á 4,4 milljarða króna.

hbgrandi
Auglýsing

„Umfangsmikil og ítrekuð viðskipti stærsta hluthafa HB Granda við félagið eru óheppileg að okkar mati. Slíkt er fordæmalaust á innlendum hlutabréfamarkaði.“ Þetta segir Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar og staðgengill forstjóra Gildis lífeyrissjóðs. 

Þau viðskipti sem Davíð á við eru fyrirætluð kaup HB Granda á öllu hlutafé í sölu­fé­lögum í Jap­an, Hong Kong og á meg­in­landi Kína, sem og þjónustufélagi á Íslandi, frá Útgerð­ar­fé­lagi Reykja­víkur á 4,4 millj­arða króna. Útgerðarfélag Reykjavíkur er stærsti hluthafi HB Granda og forstjóri HB Granda, Guðmundur Kristjánsson, er stærsti hluthafi Útgerðarfélags Reykjavíkur. 

Gildi tilkynnti fyrr í dag að sjóðurinn muni greiða atkvæði gegn kaupunum á hluthafafundi sem fram fer á fimmtudag. Í tilkynningu vegna þess kom meðal annars fram að viðskipti við tengda aðila yrðu að vera hafin yfir allan vafa. Þær fyrirætlanir sem fyrir liggi séu ekki trúverðugar og sjóðurinn telji að ekki hafi verið sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til þess að ná fram sömu mark­mið­um, mögu­lega með minni til­kostn­aði.  

Auglýsing
Davíð segir að það hafi vakið athygli Gildis hversu stórum hluta í HB Granda lagt væri upp með að verja í þessa fjárfestingu og hversu skamman tíma stjórn félagsins tók sér til að taka ákvörðun um viðskiptin. Ætlað kaupverð er 4,4 milljarðar króna og lagt hefur verið til að kaup­verðið verði greitt með 7,3 pró­sent aukn­ingu á hlutafé HB Granda. Verði kaupin sam­þykkt mun hlutur Útgerð­ar­fé­lags Reykja­víkur í HB Granda hækka úr 35,01 prósent í 42,31 pró­sent í HB Granda. „Að mati Gildis hefur ekki tekist að sýna fram á að þessi viðskipti séu hagfelld eða nauðsynleg fyrir HB Granda,” segir Davíð.

Upphaflegt kaupverð ekki opinbert

Umrædd sölufélög voru keyptar af Brim, sem nú heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur, af Icelandic Group í lok árs 2015. Engar upplýsingar eru um hver verðmiðinn á þeim var í ársreikningum Icelandic Group frá þeim tíma né í ársreikningi þáverandi eiganda félagsins, Framtakssjóðs Íslands. 

Aðrir hluthafar í HB Granda sem Kjarninn hefur rætt við segjast ekki hafa upplýsingar um hvert kaupverðið var á sölufélögunum þegar þau voru keypt né frekari skýringar á því hvað í starfsemi sölufélaganna útskýri þann háa verðmiða sem sé á þeim. Þá taka viðmælendur Kjarnans undir gagnrýni Gildis um að afgreiðsla stjórnarinnar á kaupunum hafi átt sér afar skamman aðdraganda. 

Auglýsing
Fjórir lífeyrissjóðir: Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Gildi og lífeyrissjóðurinn Birta eiga samtals 40,11 prósent hlut í HB Granda.

Kaupin á sölufélögunum er ekki eina tillagan sem liggur fyrir hluthafafundinum á morgun. Þar verður einnig lagt til að nafni HB Granda verði breytt í Brim, sem er það nafn sem Útgerðarfélag Reykjavíkur bar áður en að það keypti ráðandi hlut í HB Granda. 

Ekki einu viðskiptin við við stærsta eigandann

Kaupin á sölufélögunum verða ekki einu viðskiptin sem átt hafa sér stað milli Útgerðarfélags Reykjavíkur og HB Granda, verði þau að veruleika. Seint á síðasta ári samþykkti framhaldsaðalfundur kaup á Ögurvík, sem gerir út skipið Vigra RE, á 12,3 milljarða króna. 

Gildi hafði einnig efasemdir um þau kaup og óskaði eftir því að fyr­ir­tækja­svið Kviku banka tæki saman minn­is­blað um kaup­in, áður en þau yrðu borin upp til sam­þykkis á hlut­hafa­fundi. Það var gert. 

Minn­is­blaðið studd­ist við gögn frá stjórn­endum HB Granda, og sagði kaup­in, upp á 12,3 millj­arða króna, geta skilað HB Granda umtals­verðum ávinn­ing­i. 

Kjarninn greindi frá umsögn greinanda Capacent um kaupin í nóvember 2018. Þar kom fram að greinandanum hafi liðið „eins á laug­ar­dags­morgni eftir kvöld á Kaffi­barn­um“ þegar rýnt væri í for­sendur kaup­verðs HB Granda á Ögur­vík. „Svarið við alheim­inum og til­gangi lífs­ins er 42,“ sagði í greiningunni, og þar vitnað til þess að hægt sé að fá út hin ýmsu verð á Ögur­vík, þegar það er verið að greina kaup HB Granda á félag­in­u. 

Töl­una 42 í sam­hengi við svarið við spurn­ing­unni um til­gang lífs­ins, má rekja til bók­ar­inn­ar The Hitchhiker's Guide to the Galaxy eftir Douglas Adams.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir
Vonandi hægt að aflétta nokkuð hratt á næstu vikum
Helsta áskorunin í faraldrinum nú er sá fjöldi ferðamanna sem hingað er að koma sem er umfram spár. Breyta gæti þurft fyrirkomulagi á landamærum því heildargeta til skimunar takmarkast við 3-4.000 sýni á dag.
Kjarninn 6. maí 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 36. þáttur: Nunnusjóguninn II
Kjarninn 6. maí 2021
Deilan snýst um verksamning á milli ÍAV og 105 Miðborgar um fyrstu þrjú húsin sem eru þegar risin á reitnum í Laugarnesi. Hér má sjá tölvuteikningu af því hvernig áformað er að svæðið líti út í framtíðinni.
ÍAV stefna og setja fram 3,8 milljarða kröfur vegna deilu á Kirkjusandsreit
Íslenskir aðalverktakar eru búnir að stefna Íslandssjóðum og félaginu 105 Miðborg til greiðslu 3,8 milljarða króna vegna deilu um verksamning á Kirkjusandsreit. Verktakafyrirtækið missti verkið í febrúarmánuði.
Kjarninn 6. maí 2021
Andrés Ingi Jónsson
Þegar Tyrkir þjörmuðu að þingmönnum
Kjarninn 6. maí 2021
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Síldarvinnslan einnig í vandræðum með tæknilegu hliðina á aðalfundi SFS
Mistök urðu þess valdandi að Síldarvinnslan náði ekki að greiða atkvæði í kjöri til stjórnar SFS á aðalfundi á föstudaginn. Tillaga um að greiða atkvæði á ný var þó samþykkt í kjölfarið, en þá lentu Samherji og Nesfiskur í svipuðum vandræðum.
Kjarninn 6. maí 2021
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í dómsal í dag.
„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
Það er mat ákæruvaldsins að Marek sé ekki að segja nákvæmlega allt sem hann muni frá deginum sem bruninn á Bræðraborgarstíg varð. Verjandi fer fram á að ef hann verði fundinn sekur og ósakhæfur verði hann ekki dæmdur til öryggisgæslu.
Kjarninn 5. maí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir ljóst að spennandi tímar séu framundan, vegna fyrirhugaðrar sölu ríkisins á hluta af hlut sínum í Íslandsbanka.
Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi
Eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum króna í lok mars. Bankastjórinn segir spennandi tíma framundan, í ljósi þess að stefnt sé að skráningu bankans á verðbréfamarkað að undangengnu útboði á hluta af hlut ríkisins í honum.
Kjarninn 5. maí 2021
Höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúninu
Arion hagnast um 6 milljarða á þremur mánuðum
Þrátt fyrir lága vexti og efnahagssamdrátt var hagnaður Arion banka á fyrsta fjórðungi þessa árs mun meiri en á sama tímabili í fyrra.
Kjarninn 5. maí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar