Lífeyrissjóður verzlunarmanna vill að endanlegt kaupverð HB Granda á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, sem og þjónustufélagi á Íslandi, frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur verði tengt við afkomu næstu ára. Samkvæmt tillögu sem stjórn HB Granda hefur samþykkt, og kosið verður um á hluthafafundi í dag, átti kaupverðið að vera 4,4 milljarðar króna.
Útgerðarfélag Reykjavíkur er stærsti hluthafi HB Granda og forstjóri HB Granda, Guðmundur Kristjánsson, er stærsti hluthafi Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Í tilkynningu frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna segir að hann muni leggja fram breytingatillögu við fyrirliggjandi tillögu á hluthafafundi HB Granda síðar í dag. Tillagan felur í sér að gangi áætlanir seljanda eftir verður umsamið kaupverð greitt að fullu en ella kemur til lækkunar þess. „Tillagan felur í sér að endalegt kaupverð verði tengt við afkomu næstu ára. Að öðru leyti telur sjóðurinn að sölufélögin falli vel að rekstri HB Granda og að þau séu í samræmi við yfirlýsta stefnu þess um eflingu sölu- og markaðsstarfs. Þetta er niðurstaða sjóðsins eftir greiningu á fyrirliggjandi gögnum.“
Gildi segir nei
Gildi lífeyrissjóður, sem er einnig stór hluthafi í HB Granda, tilkynnti í fyrradag að sjóðurinn muni greiða atkvæði gegn kaupunum á hluthafafundi sem fram fer í dag. Í tilkynningu vegna þess kom meðal annars fram að viðskipti við tengda aðila yrðu að vera hafin yfir allan vafa. Þær fyrirætlanir sem fyrir liggi séu ekki trúverðugar og sjóðurinn telji að ekki hafi verið sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til þess að ná fram sömu markmiðum, mögulega með minni tilkostnaði.
Fjórir lífeyrissjóðir: Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Gildi og lífeyrissjóðurinn Birta eiga samtals 40,11 prósent hlut í HB Granda.
A og B-deild LSR eru samanlagt stærsti eigandinn í lífeyrissjóðahópnum með alls 15,15 prósent eignarhlut. A-deildin á 11,37 prósent hlut en B-deildin 3,78 prósent. Í svari við fyrirspurn Kjarnans um afstöðu sjóðsins til kaupanna á sölufélögunum kom fram að málið væri enn í skoðun.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 12,53 prósent hlut í HB Granda. Nú liggur fyrir afstaða hans til kaupanna.
Verður greitt með nýju hlutafé
Ætlað kaupverð á sölufélögunum er, líkt og áður sagði, 4,4 milljarðar króna og lagt hefur verið til að kaupverðið verði greitt með 7,3 prósent aukningu á hlutafé HB Granda. Verði kaupin samþykkt mun hlutur Útgerðarfélags Reykjavíkur í HB Granda hækka úr 35,01 prósent í 42,31 prósent í HB Granda. Við það verður eignarhlutur Útgerðarfélags Reykjavíkur stærri en sameiginlegur eignarhluti lífeyrissjóðanna fjögurra sem eiga stóran hlut í HB Granda.
Fyrir hluthafafundinum á morgun liggur einnig fyrir breytingartillaga um að breyta nafni HB Granda í Brim, sem er það nafn sem Útgerðarfélag Reykjavíkur bar árum saman og Guðmundur Kristjánsson er oftast kenndur við.