Einn megintilgangur þess að VR greiði þann lögfræðikostnað sem til fellur vegna ákvörðunar smálánataka að hætta að greiða ólöglegan vaxtakostnað af slíkum lánum er sá að hindra að þau geti innheimt útistandandi kröfur fram yfir boðaða lagasetningu um starfsemi þeirra. Stjórn VR samþykkti í gærkvöldi með öllum greiddum atkvæðum að gerast fjárhagslegur bakhjarl neytenda í baráttunni gegn smálánum.
Í því mun felast að VR, í samstarfi með Neytendasamtökunum, mun leggja út fyrir kostnaði vegna lögfræðivinnu og dómsmála sem þarf að höfða til að koma í veg fyrir að smálánafyrirtæki og þeir sem sinna innheimtu fyrir þau geti haldið áfram að innheimta okurvexti frá lántökum.
Frumvarp um breytingar á lögum um neytendalán, sem sett er fram til höfuðs smálánastarfsemi hérlendis, hefur verið í umsagnarferli frá 12. júlí síðastliðinn í Samráðsgátt stjórnvalda. Því ferli lýkur á morgun, 16. ágúst og enn sem komið er hafa engar umsagnir borist. Samkvæmt skilgreindum markmiðum frumvarpsins er því ætlað að þrengja að smálánafyrirtækjum og koma í veg fyrir veitingu ólögmætra lána sem innheimta of háan heildarlántökukostnað.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, hefur sagt það opinberlega að hún ætli sér að stöðva starfsemi smálánafyrirtækja og ofangreint frumvarp hennar þess efnis verður lagt fram í haust.
Hvetja fólk til að greiða ekki ólöglega vexti
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í samtali við Kjarnann í gær að hann teldi að Almenn innheimta ehf., sem sér um innheimtu fyrir Kredia, Hraðpeningar, Smálán, 1909 og Múla, sé í herferð við að ná inn sem mestu af útistandandi meintum skuldum á næstu vikum áður en að nýtt frumvarp sem á að koma í veg fyrir starfsemi smálánafyrirtækja, sem verður lagt fram í haust, verður samþykkt.
Þeir sem fá ekki sundurliðaða reikninga sem sýni að innheimtur kostnaður sé lögmætur eru hvattir til þess að hætta að greiða af smálánum sínum og leita þess í stað til lögmanna á vegum Neytendasamtakanna til að leita réttar síns.
Með ákvörðun stjórnar VR í gær, um að gerast fjárhagslegur bakhjarl baráttunnar gegn smálánum með því að greiða lögfræðikostnað þeirra sem ákveða að hætta að greiða ólöglega vexti eða smálánareikninga sem eru ekki sundurliðaðir, er verið að spyrna við því að smálánafyrirtækin nái að innheimta þann vaxtakostnað sem þau telja sig eiga útistandandi.
Neytendasamtökin stóðu ráðþrota gagnvart „svínslegum viðskiptaháttum“
Neytendasamtökin hafa verið í forgrunni í baráttunni gegn smálánafyrirtækjunum undanfarin misseri. Í tilkynningu frá þeim sem send var út 31. júlí síðastliðinn kom fram að fólk væri krafið um greiðslur á ólögmætum vöxtum og himinháum vanskilakostnaði en hafi í mörgum tilfellum verið látið borga margfalt meira en því ber. „Almenn innheimta ehf. leikur enn þann ljóta leik að hóta fólki með skráningu á vanskilaskrá Creditinfo, stilla því upp við vegg og innheimta himinháan vanskilakostnað ofan á kröfur sem fyrir liggur að eru ólögmætar.“
Samtökin sögðust standa ráðþrota gagnvart þessu framferði og ekki muna eftir jafn svínslegum viðskiptaháttum og aðför að hópi neytanda sem oft sé veikur fyrir. Þá sé með öllu óskiljanlegt að lögmaður skuli komast upp með innheimtu á ólöglegum lánum og að halda mikilvægum gögnum frá lántakendum. Erindi Neytendasamtakanna til Lögmannafélags Íslands vegna starfshátta Gísla Kr. Björnssonar,eiganda Almennrar innheimtu ehf., var vísað frá vegna aðildarskorts.
Gísli Kr. Björnsson hefur gefið það út að fyrirtækið sé hætt að veita smálán og innheimta smálán á hærri vöxtum en 53,75 prósent. Hann hefur enn fremur sagt að Almenn innheimta ehf. hafi útvegað allar sundurliðanir sem þau hefðu verið beðin um. Neytendasamtökin halda því aftur á móti fram að fullyrðingar Gísla stangist á við reynslu skjólstæðinga þeirra.