Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að í undirbúningi sé að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði en að ríkismiðlinum verði bætt upp það tekjutap með greiðslum úr ríkissjóði. Ráðuneyti hennar er einnig að skoða leiðir til að jafna stöðu íslenskra og erlendra fjölmiðla á auglýsingamarkaði. Íslenskir fjölmiðlar greiði til að mynda virðisaukaskatt af auglýsingasölu sem erlendir aðilar á þeim markaði, sem taka sífellt til sín stærri sneið hans, gera ekki. Við það verði innlendir fjölmiðlar og ríkissjóður af tekjum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun.
Þar segir Lilja einnig að fyrirhugað fjölmiðlafrumvarp hennar, sem kemur á endurgreiðslum úr ríkissjóði til einkarekinna fjölmiðla, geti leitt til verulegra breytinga á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
Lilja telur fyrirhugað fjölmiðlafrumvarp geta leitt til verulegra breytinga á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Veik staða einkarekinna fjölmiðla sé áhyggjuefni.
Mælt fyrir frumvarpi í haust
Lilja mun mæla fyrir frumvarpi sínu um endurgreiðslur á kostnaði til einkarekinna fjölmiðla á komandi haustþingi. Frumvarpið hefur þegar verið skráð og verið tekið til umfjöllunar í ríkisstjórn.
Markmiðið með frumvarpinu er að efla hlutverk ríkisins, þegar kemur að fjölmiðlaumhverfinu, og styrkja rekstrarumhverfið, en í frumvarpinu felst meðal annars að stíga fyrstu skrefin í átt að því sem þekkst hefur á Norðurlöndunum um árabil. Í frumvarpinu er lagt til að stuðningur ríkisins við einkarekna fjölmiðla verði tvíþættur. Annars vegar stuðning í formi endurgreiðslu á allt að 25 prósent af tilteknum hluta kostnaðar af ritstjórnarstörfum, en að hámarki er hann 50 milljónir króna á fjölmiðil. Hins vegar talað um stuðning sem nemi allt að 5,15 prósent af launum starfsfólks á ritstjórn sem fellur undir lægra skattþrep tekjuskattsstofna.
Sjálfstæðisflokkurinn vill breytingar
Í mars síðastliðnum sagði Lilja í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut að það væri stjórnarmeirihluti fyrir frumvarpinu þrátt fyrir að það hefði verið gagnrýnt úr ýmsum áttum, meðal annars af hluta þingmanna Sjálfstæðisflokks. Fréttablaðið greinir hins vegar frá því í lok júní að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggi mikla áherslu á að frumvarpið taki verulegum breytingum áður en það verður lagt fram að nýju í haust. Þær breytingar snúast aðallega um stöðu RÚV á samkeppnismarkaði.
Þjónustusamningur RÚV við mennta- og menningarmálaráðuneytið, sem skilgreinir hlutverk, skyldur og umfang RÚV, rennur út í lok þessa árs. Heimildir Kjarnans herma að vinna við nýjan samning sé þegar hafin en sá mun taka gildi í byrjun næsta árs.
Á meðal þess sem er undir í þeirri vinnu er hvernig starfsemi RÚV verður fjármögnuð og hvort að RÚV verði áfram heimilt að sækja sér tekjur á samkeppnismarkaði.