„Við höfum fengið virkilega jákvæð viðbrögð við aðgerðunum sem miða að fjölgun kennara, frá skólasamfélaginu, sveitarfélögunum, kennaraforystunni og foreldrum.“ Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, en frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins í dag.
Liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að fjölga kennurum er að frá og með þessu hausti býðst nemendum á lokaári í meistaranámi til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám. Samkvæmt upplýsingum frá háskólunum gengur mjög vel að finna starfsnámstöður fyrir kennaranema en 96 prósent þeirra sem eftir því sækjast hafa þegar fengið stöðu.
Lilja segir að aðgerðirnar hafi verið unnar í góðu samráði og að samvinnan sé farin að skila góðum árangri. „Það er okkur kappsmál að stuðla að öflugu skólastarfi og styrku menntakerfi – þar leika kennarar aðalhlutverkið.“
Umsóknum um kennaranám fjölgar verulega milli ára
Í starfsnámi kennaranema starfa þeir við hlið reyndra kennara yfir heilt skólaár. Starfsnámið er samkvæmt mennta- og menningarmálaráðuneytinu fjölbreytt, kennaranemar sinni daglegum störfum í skólunum og kynni sér fjölbreyttar kennsluaðferðir og starfshætti á þeim námssviðum eða námsgreinum sem þeir hyggjast sérhæfa sig í. Starfsnámið sé mikilvægur liður í þjálfun kennaranemanna og undirbúningi þeirra fyrir frekari störf í skólum að lokinni útskrift.
Lilja kynnti aðgerðirnar þann 5. mars síðastliðinn en þær fela meðal annars í sér launað starfsnám, námsstyrk til nemenda og styrki til starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn. Aðgerðirnar eiga sem sagt að taka á kennaraskorti í landinu.
Umsóknum um kennaranám fjölgaði verulega milli ára síðastliðið vor eða alls um rúmlega 200 í háskólunum fjórum sem bjóða upp á kennaranám hér á landi.
Aðgerðirnar einar og sér leysa ekki allan vanda menntakerfisins
Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í samtali við Kjarnann þegar aðgerðirnar voru kynntar að hann teldi þær tímabærar. „Það hefur blasað við í nokkurn tíma að sá alvarlegi kennaraskortur sem þegar er orðinn staðreynd í leikskólum mun, ef ekkert er að gert, ná til grunnskólans innan fárra ára. Hrun í aðsókn í kennaranám hefur þegar haft áhrif á getu háskólanna til að halda úti þeirri kennslu og þeim rannsóknum sem nauðsynlegar eru á miklum umbyltingartímum í menntakerfum heimsins. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að grípa til aðgerða til að efla kennaramenntun í landinu,“ sagði hann.
Hann taldi þó aðgerðirnar einar og sér ekki leysa allan vanda menntakerfisins en að þær væru samt nauðsynlegar. „Það sem skiptir kannski mestu máli er að nú er fókusinn kominn á réttan stað og stjórnvöld hafa tekið á sig þá ábyrgð að stuðla að nauðsynlegum umbótum áður en það er of seint. Á Íslandi hefur skort á slíka langtímahugsun og því fagna ég henni. Við sem samfélag þurfum svo að taka höndum saman og styðja við menntakerfið, alveg eins og við eigum að gera við önnur mikilvæg grundvallarkeri samfélagsins.“