Pexels

Samfélagið verður að átta sig á mikilvægi kennarastarfsins

Ef marka má viðbrögð við nýrri aðgerðaáætlun í menntamálum hefur náðst breið sátt um hvað gera skuli til að auka veg og gengi kennarastarfsins – sérstaklega á yngstu skólastigunum. Með því að hlúa að stétt leik- og grunnskólakennara ætti að vera hægt að koma menntun framtíðarkynslóða í góðan farveg. En duga þessar aðgerðir til?

„Skortur er á kennurum með réttindi á öllum skólastigum og brýnt að finna leiðir til að fjölga þeim sem velja kennaranám, bregðast við þeim vanda sem brotthvarf nýliða úr starfi felur í sér en einnig að stuðla að því að nýútskrifaðir kennarar ráði sig til starfa.“

Þannig hljóðar ein klausan í nýrri aðgerðaáætlun stjórnvalda til að fjölga kennurum sem kynnt var í síðustu viku og fjölmiðlar fjölluðu um. Ekki er ofsagt að vandamál í menntamálum hefur verið stigvaxandi síðastliðin misseri og ár. Nýnemum hefur fækkað og færri útskifast en áður sem leik- og grunnskólakennarar. Starfið er krefjandi og getur verið erfitt og hafa þeir, sem menntaðir eru til þess, leitað á önnur mið til að minnka álag og fá hærri laun.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti aðgerðirnar þann 5. mars síðastliðinn en þær fela meðal annars í sér launað starfsnám, námsstyrk til nemenda og styrki til starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn. Aðgerðirnar eiga sem sagt að taka á kennaraskorti í landinu.

Nemendur býðst launað starfsnám

Í stuttu máli snúast aðgerðirnar út á að frá og með næsta hausti bjóðist nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám. Markmiðið með þeirri aðgerð er að hvetja nemendur til þess að klára nám sitt á tilsettum tíma og að þeir hefji störf sem fyrst að námi loknu. Starfsnámið skal vera í minnst 50 prósent starfshlutfalli við leik- eða grunnskóla í eitt skólaár og fá nemendur greitt samkvæmt kjarasamningi.

Nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi geta sótt um námsstyrk frá og með næsta hausti. Markmið styrksins er að auðvelda nemendum að sinna lokaverkefnum sínum samhliða launuðu starfsnámi og skapa hvata til þess að nemendur klári nám sitt á tilsettum tíma. Styrkurinn nemur alls 800.000 krónum.

Leiðsagnakennarar skipta lykilmáli

Í tilkynningunni frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, sem send var út við tilefnið, kemur fram að mikilvægt sé að fjölga kennurum í íslenskum skólum sem hafi þekkingu á móttöku nýliða í kennslu. Slíkir leiðsagnakennarar skipti lykilmáli við að sporna gegn brotthvarfi nýútskrifaðra kennara úr starfi en mest sé hættan á brotthvarfi úr kennslu fyrstu þrjú árin.

Í þessu skyni muni mennta- og menningarmálaráðuneyti því styrkja Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. „Forsendur þessa styrks verða annars vegar þær að skólastjórnendur styðji umsókn kennara í námið og hins vegar að tryggja þurfi jafna dreifingu þessara styrkja milli skóla og landshluta í því augnamiði að sem flestir skólar landsins hafi kennara innan sinna raða með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn.“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Bára Huld Beck

Öflugt menntakerfi forsenda framfara

Lilja segir í samtali við Kjarnann að til að ná fram framförum í menntakerfinu sé nauðsynlegt að vinna að sátt og samstöðu. Því hafi verið nauðsynlegt að vinna að aðgerðaáætluninni í samvinnu við menntavísindasvið háskólanna, Kennarasambandið, Samband íslenskra sveitarfélaga, atvinnulífið og önnur lykilráðuneyti.

Hún segir jafnframt að mikill stuðningur sé við aðgerðirnar og að ríkisstjórninni sé mjög umhugað um að störf kennara öðlist viðurkenningu. Öflugt menntakerfi sé forsenda framfara, sér í lagi þar sem tækniframfarir eru eins miklar og raun ber vitni. „Ég held að hægt sé að ná til allra,“ segir hún í því samhengi.

Lilja telur samfélagið vera á spennandi vegferð og frábært sé að eiga í þessu víðtæka samtali. Þörf sé á að fara í afgerandi aðgerðir enda sé þetta stór samfélagsleg áskorun. „Það er mikill áhugi á því hjá öflugum fyrirtækjunum að koma að svona vitundarvakningu. Má í því samhengi nefna að Kvika hefur stofnað nýjan hvatningarsjóð fyrir kennaranema.“ Hún segir enn fremur að þau samfélög sem náð hafa árangri í menntamálum eigi það sameiginlegt að breiður stuðningur sé við menntamál og skilningur á mikilvægi þeirrar fjárfestingar.

Samfélagið allt verður að átta sig á mikilvægi kennarastarfsins

Ráðherra segir að þær aðgerðir sem hún kynnti í síðustu viku séu einungis fyrsti áfanginn af þremur. Næsti áfangi mun snúast um að fá kennara sem hafa horfið frá kennslu aftur í starfið. „Það er rosalegur mannauður þarna úti,“ segir hún en til stendur að kynna næstu aðgerðir eftir ár.

Hún bætir því við að í fyrsta lagi verði samfélagið allt að átta sig á mikilvægi kennarastarfsins og í öðru lagi verði kennararnir sjálfir að finna að starfið þeirra skipti máli.

Framundan séu svakalega spennandi tímar og telur Lilja að íslenska menntakerfið hafi alla burði til að ná framúrskarandi árangri, ef tryggt sé það hugarfar að allir geti lært og allir skipti máli. Hún ætlar sér að ná pólitískri sátt um menntastefnuna og telur hún að ekki sé eftir neinu að bíða enda verkefnin aðkallandi.

Mikilvægt er að kennarastéttin finni hvers virði hún er.
Pexels

Það hefur skort langtímahugsun

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, telur aðgerðirnar tímabærar. „Það hefur blasað við í nokkurn tíma að sá alvarlegi kennaraskortur sem þegar er orðinn staðreynd í leikskólum mun, ef ekkert er að gert, ná til grunnskólans innan fárra ára. Hrun í aðsókn í kennaranám hefur þegar haft áhrif á getu háskólanna til að halda úti þeirri kennslu og þeim rannsóknum sem nauðsynlegar eru á miklum umbyltingartímum í menntakerfum heimsins. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að grípa til aðgerða til að efla kennaramenntun í landinu,“ segir Ragnar Þór í svari við fyrirspurn Kjarnans.

Hann telur aðgerðirnar einar og sér ekki leysa allan vanda menntakerfisins en þær séu samt nauðsynlegar. „Það sem skiptir kannski mestu máli er að nú er fókusinn kominn á réttan stað og stjórnvöld hafa tekið á sig þá ábyrgð að stuðla að nauðsynlegum umbótum áður en það er of seint. Á Íslandi hefur skort á slíka langtímahugsun og því fagna ég henni. Við sem samfélag þurfum svo að taka höndum saman og styðja við menntakerfið, alveg eins og við eigum að gera við önnur mikilvæg grundvallarkeri samfélagsins,“ segir Ragnar Þór.

Fagnar samstöðunni

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ, sagðist í samtali við RÚV eftir að aðgerðirnar voru kynntar í síðustu viku fagna því að þær næðu bæði til kennaranema og starfandi kennara. Hún sagði það mikilvægt að grípa til aðgerða og reyndar væri fólk þegar farið að sjá meiri aðsókn í kennaranám.

„Það er aukinn áhugi og umræða um menntun í samfélaginu þannig að ég hef þá trú að þessar aðgerðir séu hvatning." Hún sagðist jafnframt fagna mjög samstöðunni í kringum þessar aðgerðir. „Samfélagið í heild er að stíga hér fram og styðja við bakið á kennurum."

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar