WOW air var orðið ógjaldfært um mitt síðasta ár, áður en skuldabréfaútboð félagsins sem átti að rétta við rekstur þess hófst. Áætlanir félagsins voru auk þess ófullnægjandi og gáfu ekki raunsanna mynd af rekstri né efnahagi WOW air. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Deloitte sem unnin var á málefnum WOW air fyrir skiptastjóra þrotabús félagsins, en innihald hennar var kynnt á skiptafundi sem hófst klukkan 13 í dag. Viðskiptablaðið greinir frá.
Í frétt blaðsins segir einnig að þátttaka Skúla Mogensen í skuldabréfaútboðinu haustið 2018 virðist hafa verið fjármögnuð með láni frá Arion banka. Ekki sé víst að öðrum þátttakendum í útboðinu hafi verið kunnugt um það.
Viðskiptablaðið greinir frá því að 1,1 milljarður króna sé til í búinu en heildarkröfur í það eru 151 milljarður króna. Engar líkur eru á því að nokkuð fáist upp í 138 milljarða króna almennar kröfur. Þrjár milljónir króna voru til á reikningi WOW air þegar félagið fór í þrot.
Þegar er búið að höfða riftunarmál á hendur Títan, fjárfestingafélagi Skúla Mogensen, upp á 108 milljónir króna og skiptastjórar eru að skoða hvort hægt sé að rifta greiðslu á 37 milljónum króna sem WOW air stóð undir vegna húsaleigu íbúðar Skúla Mogensen í London.
Flaug hátt en brotlenti með látum
Eftir mikinn uppgang árum saman lenti íslenska lágfargjaldarflugfélagið WOW air í verulegum vandræðum í fyrra. Skuldabréfaútboð upp á 50 milljónir dala (um sex milljarða króna á gengi dagsins í dag) sem félagið fór í í september 2018 dugði ekki til að laga stöðuna.
Í kjölfarið var reynt að selja WOW air til Icelandair (tvisvar) og Indigo Partners. Þau áform gengu ekki eftir. Síðasta tilraun með Icelandair, sem stóð yfir seint í mars 2019, fór fram á þeim forsendum að WOW Air væri fyrirtæki á fallandi fæti.
Til að slíkar forsendur haldi, en þær heimila til dæmis að samkeppnislegum áhrifum samruna er vikið til hliðar, þá þarf að liggja fyrir að enginn raunhæfur möguleiki sé á því að aðrir kaupendur séu til staðar.
Íslenska ríkið taldi sig ekki hafa neinar forsendur til að ganga inn í rekstur WOW air. Og að morgni 28. mars 2019 fór félagið í þrot.
Afdrifdaríkt skuldabréfaútboð
Skuldabréfaútboðið í september á eftir að reynast örlagaríkt. Skúli keypti sjálfur skuldabréf fyrir 5,5 milljónir evra í útboðinu. Aðrir sem tóku þátt í skuldabréfaútboðinu voru innlend fjármálafyrirtæki og erlendir fjárfestar og sjóðir. Þá keyptu tveir sjóðir í stýringu GAMMA keyptu samanlagt skuldabréf fyrir tvær milljónir evra, annar þó stærri hlutann eða fyrir 1,8 milljónir evra. Kvika banki lagði svo eina milljón evra í útboðið.
Bandaríska fjárfestingafélagið Eaton Vance var stærsti einstaki kaupandinn í skuldabréfaútboðinu og keyptu þrír vogunarsjóðir félagsins samtals skuldabréf fyrir 10 milljónir evra og nam fjárfesting Eaton Vance því um 20 prósent af heildarumfangi útboðsins. Ýmsir evrópskir fjárfestingarsjóðir, alls 20 talsins, keyptu svo skuldabréf fyrir samanlagt 11,4 milljónir evra. Norski lífeyrissjóðurinn MP Pensjon lagði þeirra mest til, eða 2 milljónir evra. Sjóður sænska bankans Swedbank, sem stýrt er frá Lúxemborg, lagði svo til 1,5 milljónir evra og sænska sjóðstýringarfyrirtækið Peak AM lagði til sömu fjárhæð. Aðrir evrópskir fjárfestar lögðu minna til, eða á bilinu 0,1-1 milljón evra.
Frá þessu var meðal annars greint í Í bók Stefáns Einars Stefánssonar, viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins, sem ber nafnið WOW – Ris og fall flugfélags og kom út í maí. Þar kom einnig fram að félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, Reliquum, hefði keypt fyrir um þrjár milljónir evra.