Icelandair Group gerir ekki lengur fyrir því að geta notað Boeing 737 MAX vélar sínar, sem hafa verið kyrrsettar frá því 12. mars, í rekstri sínum á þessu ári. Fyrri áætlanir og tilkynningar gerðu ráð fyrir að þær yrðu komnar í gagnið í október.
Leigusamningur einnar af þeim fimm flugvélum sem félagið bætti við flota sinn í sumar, til að lágmarka tjón félagsins og áhrif kyrrsetningarinnar á farþega og íslenska ferðaþjónustu, hefur verið framlengdur út októbermánuð. Aðrir leigusamningar um flugvélar, sem gerðir voru vegna kyrrsetningar MAX vélanna, verða ekki framlengdir.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair Group sendi til Kauphallar í lok síðustu viku.
Vegna þessa hefur Icelandair aðlagað flugáætlun sína. Heildarsætaframboð félagsins í nóvember og desember verður aukið um tæplega þrjú prósent miðað við sama tímabil 2018 og áhersla verður á að auka það til Evrópu. Heildarsætaframboð til Norður-Ameríku dregst hins vegar saman milli ára, sem skýrist aðallega af fækkun áfangastaða frá fyrra ári.
Áhersla Icelandair verður minna á tengifarþegar – þá sem stoppa hérlendis einungis til að taka flugvél annað – og meiri á að flytja hingað til lands farþegar sem eru að heimsækja Ísland sem áfangastað.
Slakt uppgjör á fyrri helmingi árs
Icelandair Group tapaði alls 89,4 milljónum dala, um ellefu milljörðum króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta kom fram í hálfsársuppgjöri félagsins sem birt var í fyrr í mánuðinum. Þar sagði að heildartekjur þess hefðu aukist, launakostnaður lækkað en eldsneytiskostnaður og kostnaður vegna flugvélaleigu hækkað.
Ástæðan fyrir slöku uppfjöri var fyrst og síðast vegna kyrrsetningar á MAX-vélum Icelandair, en félagið hefur þegar fengið sex slíkar afhentar og átti von á þremur til viðbótar. Vélarnar voru kyrrsettar 12. mars en stefnt hafði verið að því að MAX-vélarnar myndu samsvara 27 prósent af sætaframboði félagsins á árinu 2019.
Eiginfjárhlutfall Icelandair lækkaði úr 28 í 25 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins þrátt fyrir hlutafjáraukningu upp á 5,6 milljarða króna á tímabilinu. Handbært fé félagsins lækkaði um 15,3 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins, úr um 36,9 milljörðum króna í um 21,5 milljarð króna.
Icelandair hyggst krefjast 17 milljarða króna í skaðabætur frá Boeing vegna kyrrsetningar á MAX-vélunum.