Íslandspóstur sagði í dag upp 43 starfsmönnum og mun stöðugildum hjá fyrirtækjum fækka um alls 80 á þessu ári. Uppsagnirnar eru fyrst og fremst meðal millistjórnenda, á skrifstofu og í póstmiðstöð. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að uppsagnirnar eru liður í nauðsynlegum hagræðingaraðgerðum sem miða að því að tryggja sjálfbæran rekstur fyrirtækisins og nútímavæðingu starfseminnar.
12 prósent fækkun
Tilkynnt var í júní síðastliðnum að viðamiklar skipulagsbreytingar væru fram undan hjá Íslandspósti. Framkvæmdastjórum fyrirtækisins hefur verið fækkað úr fimm í þrjá en samkvæmt forstjóra fyrirtækisins eru breytingarnar gerðar til draga úr rekstrarkostnaði fyrirtækisins og auka hagræðingu.
Nú hefur 43 starfsmönnum einnig verið sagt upp en fyrir uppsagnir voru stöðugildi fyrirtækisins 666 og er því um að ræða 12 prósent fækkun. Í tilkynningunni segir að gert sé ráð fyrir að aðgerðirnar leiði til um 500 milljón króna hagræðingar í rekstri Íslandspósts á ársgrundvelli. Þá er tekið fram í tilkynningunni að samhliða uppsögnunum verði ráðist í skipulagsbreytingar sem tryggja eiga að þjónusta Íslandspósts skerðist ekki.
„Uppsagnirnar í dag eru sársaukafullar og taka á alla, en eru því miður óumflýjanlegar til að hægt sé að ná settum markmiðum í rekstri fyrirtækisins. Við þökkum starfsfólkinu fyrir þeirra störf og munum leggja okkur fram við að aðstoða það við næstu skref,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Íslandspósts, í tilkynningunni.
Launakostnaður 61 prósent af heildargjöldum í fyrra
Árið 2018 var launakostnaður 61 prósent af heildargjöldum Íslandspósts en alls störfuðu að meðaltali 962 starfsmenn í 743 stöðugildum á árinu 2018. Þetta kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Íslandspóst sem birt var í júní. Í skýrslunni var greint frá því að fjöldi stöðugilda hjá Íslandspóst hafi almennt ekki þróast í takt við síminnkandi umsvif í kjarnastarfsemi félagsins ef litið er til síðustu tíu ára.