Jón Björnsson, fyrrverandi forstjóri Festis, var tekjuhæsti forstjóri landsins í fyrra með um 28,4 milljónir króna á mánuði. Jón stýrði Festi, sem rekur N1, Krónuna, Elko og Bakkann, þangað til í byrjun september í fyrra.
Þar á eftir komu Kári Stefánsson, með 27,5 milljónir króna á mánuði, og Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, með 27,4 milljónir króna á mánuði. Þetta kemur fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í morgun. Greint er frá þessu á vef Viðskiptablaðsins, en útgáfufélag þess gefur einnig út Frjálsa verslun.
Íslensk erfðagreining sendi frá sér athugasemd í morgun þar sem fram kemur að mánaðarlaun Kára Stefánssonar hjá fyrirtækinu séu 7,5 milljónir króna, en ekki sú tala sem tilgreind er í tekjublaðinu. „Mismunurinn stafar að mestu af því að Kári Stefánsson ákvað leysa til sín sparnað úr séreignasjóði lífeyrissjóðs í fyrra. Sú eingreiðsla bætist við skattstofninn og þannig verður þessi misskilningur til.“
Í frétt Viðskiptablaðsins um tekjur forstjóra samkvæmt Frjálsri verslun kemur fram að Tómas Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Alcoa USA, hafi verið með 14,7 milljónir króna í tekjur á mánuði í fyrra, Valur Ragnarsson, fyrrverandi forstjóri Medis, hafi verið með 10,4 milljónir króna á mánuði og Grímur Sæmundsen, forstjóri og helsti hluthafi Bláa Lónsins, fékk 10,3 milljónir króna í laun á mánuði árið 2018. Samkvæmt þessu voru sex forstjórar með mánaðarlaun sem voru yfir tíu milljónum króna á mánuði.