Samtök hernaðarandstæðinga hafa boðaða til opins skipulagsfundar næstkomandi fimmtudag með fyrir augum að leiða saman ólíka hópa til að standa að mótmælum gegn heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins. Samtökin segja að ljóst sé að fjöldamörg félög og hópar hafi ástæðu til að mótmæla heimsókn þessa manns til Íslands.
Vanvirðing við samfélag hinsegin fólks
Greint var frá því í síðustu viku að Mike Pence muni koma í opinbera heimsókn til landsins þann 4. september næstkomandi. Í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu segir að í ferð Pence til Íslands muni undirstrika mikilvægi Íslands á Norðurslóðum og ræða aðgerðir NATO til að vinna gegn auknum yfirgangi Rússa á því svæði. Þá muni hann ræða tækifæri til að ræða aukningu á viðskiptum og fjárfestingum milli landanna, en enginn fríverslunarsamningur er í gildi sem stendur milli Íslands og Bandaríkjanna.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna 78, er á meðal þeirra sem gagnrýnt hafa komu Pence til landsins harðlega. Í pistli hennar á Vísi bendir hún á endurtekin dæmi um það hvernig Pence vinni gegn réttindum hinsegin fólks og segir það vera mikla vanvirðingu við samfélag hinsegins fólks að íslensk stjórnvöld bjóði hann velkominn til landsins.
„Hinsegin fólk á Íslandi þarf að sitja undir því að íslensk stjórnvöld vinni nú hörðum höndum að komu manns sem hefur allan sinn feril - í stjórnmálum og utan þeirra - barist af fullum krafti gegn hinsegin réttindum,“ skrifar Þorbjörg í pistlinum.
Fjölmörg félög og hópar hafa ástæðu til að mótmæla
Í fréttatilkynningu Samtaka hernaðarandstæðinga segir að Pence sé fulltrúi ríkisstjórnar sem rift hefur mikilvægum afvopnunarsamningum, blásið til vígbúnaðarkapphlaups og róið undir stríðsátökum víða um lönd. Bandaríkjastjórn hefur sagt sig frá Parísarsamkomulaginu og innan Hvíta hússins eru ráðandi öfl sem hafna tilvist loftslagsbreytinga af mannavöldum.
Samtökin vilja því hafa forgöngu um að leiða saman ólíka hópa til að standa að mótmælum gegn varaforsetanum og ríkisstjórn hans en að mati þeirra er ljóst er að fjöldamörg félög og hópar hafa ástæðu til að mótmæla heimsókn þessa manns til Íslands.
„Pence og félagar hafa með ýmsum hætti staðið í vegi fyrir mannréttindabaráttu hinsegin fólks og gengið á rétt kvenna til að ráða eigin líkama með baráttu gegn þungunarrofi. Úrsögn Bandaríkjanna úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og stuðningur við einræðisstjórnir víða um lönd er til marks um þverrandi virðingu fyrir mannréttindum og það sama má segja um stefnuna gagnvart flóttafólki.“ segir í tilkynningunni.
Opni skipulagsfundur samtakanna verður þann 22. ágúst kl. 20 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.