Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, telur orkustefnu Landsvirkjunar byggja á græðgi og einokun sem ógni lífsviðurværi fólks á Vesturlandi og sérstaklega Akurnesingum og í nærsveitum. Frá þessu greindi hann í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í gær.
Hann segir að með hækkun raforkuverðs og vegna nýrra raforkusamninga Landsvirkjunar við Elkem Ísland á Grundartanga og Norðurál þá sé atvinnuöryggi félagsmanna hans verulega ógnað.
„Það er morgunljóst í mínum huga að atvinnuöryggi minna félagsmanna er ógnað verulega í ljósi þess að raforkan er að hækka bæði hjá Elkem og Norðuráli og það á sama tíma og verð á þeirra afurðum hefur lækkað mikið en nú er álverið t.d. í einungis rétt rúmum 1700 dollurum fyrir tonnið sem er sögulegu lágt. Nýr samningur tók gildi hjá Elkem 1. apríl og mun raforkuverð hækka upp undir 1,3 milljörðum hjá Elkem á ári sem þýðir að fyrirtækið mun greiða um 4,5 milljarða á ári fyrir raforkuna eftir hækkun. Rétt er að benda sérstaklega á að þessi hækkun uppá 1,3 miljarða er langtum meira en meðaltalshagnaður fyrirtækisins hefur verið á síðustu árum, sem er um 500 milljónir,“ skrifar Vilhjálmur.
Óttast að Elkem hætti starfsemi hér á landi
Hann telur jafnframt að raforkusamningurinn við Elkem muni í besta falli valda stórfelldum niðurskurði með tilheyrandi uppsögnum og hamförum fyrir félagsmenn hans sem starfa hjá fyrirtækinu. „Ég reyndar óttast innilega að innan ekki langs tíma muni eigendur Elkem taka ákvörðun um að loka og hætta starfsemi hér á landi. Enda ljóst að þessi gríðarlega raforkuhækkun uppá 1,3 milljarð á ári mun kippa öllum rekstrarforsendum undan fyrirtækinu.“
Vilhjálmur fjallar um afkomutölur Landsvirkjunar í stöðuuppfærslu sinni. „Það er óhætt að segja að afkomutölur hjá Landsvirkjun fyrstu 6 mánuðina séu glæsilegar, en hagnaður nam 8,4 milljörðum á fyrstu 6 mánuðum þessa árs og á sama tíma hefur Landsvirkjun einnig greitt niður skuldir fyrir rúma 15 milljarða. Það stefnir semsagt í að árshagnaður Landsvirkjunar verði 17 milljarðar og á sama tíma og þessi mikli hagnaður á sér stað greiðir Landsvirkjun einnig niður skuldir fyrir 15 milljarða.“
Fyrirtækin á Grundartanga lífæð og fjöregg þeirra Vestlendinga
Landsvirkjun og Norðurál Grundartangi ehf. náðu samkomulagi um að endurnýja raforkusamning fyrirtækjanna fyrir 161 MW í maí árið 2016. Endurnýjaður samningur var tengdur við markaðsverð raforku á Nord Pool raforkumarkaðnum og kemur það í stað álverðstengingar í gildandi samningi.
Hinn endurnýjaði samningur er til fjögurra ára og hljóðar upp á 161 MW, eins og áður segir, sem er nærri þriðjungur af orkuþörf álvers Norðuráls á Grundartanga. Endurnýjaður samningur tekur gildi í nóvember 2019 og gildir til loka árs 2023. Núgildandi samningur verður áfram í gildi til loka október næstkomandi.
Fram kom í fréttum árið 2016 að deila Landsvirkjunar og Norðuráls hefði staðið í nokkurn tíma. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, gagnrýndi Norðurál harðlega fyrir að hafa reynt að beita öllum mögulegum meðulum til að halda orkuverði til sín sem lægstu.
Vilhjálmur fjallar um þennan raforkusamning Norðuráls og Landsvirkjunar, í stöðuuppfærslu sinni, sem mun taka gildi þann 1. nóvember næstkomandi. „Mun þessi eini samningur hækka samkvæmt mínum útreikningum raforkuverðið til Norðuráls um 4 milljarða á ári, til viðbótar þeim 12 til 15 milljörðum sem fyrirtækið er að greiða í dag. Það er ljóst að 4 milljarða hækkun á raforkuverði á ári, mun kalla á gríðarlega hagræðingu og niðurskurð og ég óttast innilega að það muni bitna á hagsmunum og lífsviðurværi minna félagsmanna sem og á samdrætti í verslun og þjónustu hér á Vesturlandi, enda eru fyrirtækin á Grundartanga lífæð og fjöregg okkar Vestlendinga,“ skrifar hann.
Unnið markvisst að því að slátra fyrirtækjum í orkufrekum iðnaði
Vilhjálmur segist ekki fara í grafgötur um að hann telji að unnið sé markvisst að því að slátra fyrirtækjum í orkufrekum iðnaði með þessum rekstrarhækkunum í kringum raforkuna og muni það bitna á lífsviðurværi þúsunda fjölskyldna.
„Maður hlýtur að spyrja sig hvort Landsvirkjun og stjórnvöld séu markvisst á þeirri vegferð að kippa öllum rekstrarforsendum undan fyrirtækjum í orkufrekum iðnaði og segja svo eftir einhver ár þegar fyrirtækin gefast upp eitt af öðru og tilkynna um lokun að nú verði að leggja sæstreng til Íslands í hvelli því það sé til svo mikið af umframorku ónotað í kerfinu.“
Áhyggjur lúta ekki að eigendum fyrirtækjanna
Vilhjálmur tekur það fram að þessar ábendingar og áhyggjur hans lúti að hagsmunum félagsmanna hans en alls ekki að eigendum þessara fyrirtækja. Hann segir að sagan kenni fólki það að þegar svo gríðarlegur kostnaðarauki er lagður á fyrirtæki þá muni það bitna á atvinnuöryggi, ekki bara hjá þeim starfsmönnum sem starfa beint hjá þessum fyrirtækjum heldur einnig hjá þeim hundruðum starfsmanna sem starfa hjá verktökum og þjónustufyrirtækjum og þjónusta fyrirtæki í orkufrekum iðnaði.
„Að sjálfsögðu er ekkert eðlilegra en að orkufrekur iðnaður greiði sanngjarnt verð fyrir orkuna öllu samfélaginu til góða, en það má hins vegar ekki vera þannig að Landsvirkjun geti í ljósi algerrar einokunar stillt fyrirtækjum upp með þeim hætti að öll framlegð þeirra sé kippt í burtu sem leiðir til þess að atvinnuöryggi þúsund starfsmanna í þessum geira er stefnt í voða,“ skrifar hann.
Það er óhætt að segja að afkomutölur hjá Landsvirkjun fyrstu 6 mánuðina séu glæsilegar, en hagnaður nam 8,4 milljörðum á...
Posted by Vilhjálmur Birgisson on Tuesday, August 20, 2019