Árið 1991 fór Margrét Þórhildur drottning í opinbera heimsókn til Washington í boði forsetans, George Bush eldri. Fjöldi embættismanna var með í för, ásamt Uffe Ellemann Jensen þáverandi utanríkisráðherra. Hann sagði frá þessari heimsókn í bókinni „Du store verden“ sem hann skrifaði ásamt Mogens Lykketoft, sem kom út í fyrra.
Eftir að hinni opinberu heimsókn lauk dvaldi drottningin í New York, ásamt Uffe Ellemann Jensen. Þau, ásamt fleirum í fygldarliði drottningar bjuggu á Hotel Plaza við Central Park. Þremur árum fyrr hafði maður að nafni Donald Trump keypt þetta hótel. Í grein í New York Times sagði hann hreykinn frá því að hann hefði ekki bara keypt hús, hann hefði keypt „meistaraverk – Monu Lisu“.
Hóteleigandinn hafði frétt að Margrét Þórhildur byggi á hótelinu og kom nú, með miklum asa, og vildi fá að hitta drottninguna til þess að fá tekna mynd af þeim tveim. „Ég fékk skilaboð um að drottningu þætti þetta ekki góð hugmynd, og ráðherrann skyldi sjá til þess að af þessu yrði ekki“ segir Uffe Ellemann í bókinni. Ég fór þess vegna og spjallaði við hóteleigandann Trump meðan Margrét Þórhildur laumaðist út bakdyramegin. Trump virkaði klunnalegur, heimskulegur (dum) og áhugalaus.
„Ég brá á það ráð að segja honum nokkrar skröksögur um Grænland og líka af matarvenjum Grænlendinga. Skyndilega sá ég að maðurinn hlustaði af athygli. Aðstoðarmaður Trump hrósaði mér á eftir og sagði að Trump hefði takmarkaða hæfileika til að hlusta en þér tókst að fá hann til að halda athyglinni.“
Samkvæmt frásögn Uffe Ellemann Jensen reyndi Donald Trump ekki aftur að fá tekna mynd af sér og Margréti Þórhildi meðan drottningin dvaldi á Hotel Plaza.