Greiddar gistinætur ferðamanna drógust saman um aðeins 1 prósent í júlí á milli ára. Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 1.558.000 í júlí síðastliðnum, en þær voru um 1.576.000 í sama mánuði í fyrra. Þá varð aukning í gistingu á hótelum og gistiheimilum í júlí en gisting í gegnum Airbnb og sambærilegar síður dróst saman sem og gisting á öðrum gististöðum. Þetta kemur fram í gistináttatölum Hagstofu Íslands.
Gistinóttum á hótelum fjölgar um 1 prósent
Gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum voru 492.400, sem er 1 prósent fjölgun frá sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu voru 5 prósent færri en í júlí í fyrra, en þeim ýmist fjölgaði eða þær stóðu í stað í öðrum landshlutum.
Þá var herbergjanýting hótela í júlí 80,8 prósent sem er lækkun um 1,9 prósentustig frá júlí 2018 þegar hún var um 82,7 prósent. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 3,4 prósent mælt í fjölda herbergja. Á Suðurnesjum var nýting hótelherbergja mest eða um 88 prósent í júlí .
Ef litið er á tólf mánaða tímabil, frá ágúst 2018 til júlí 2019, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.400.000, sem er 1 prósent aukning miðað við sama tímabil árið áður.
17 prósent fækkun í júlí
Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 231 þúsund í júlí. Það eru um 47 þúsund færri brottfarir en júlí árið 2018 og því nam fækkunin á milli ára 17 prósentum, að því er fram kemur í talningu Ferðamálstofu og Isavia.
Fækkun hefur verið í brottförum ferðamanna alla mánuði frá áramótum, í janúar fækkaði brottförum um 5,8 prósent, í febrúar um 6,9 prósent, í mars um 1,7 prósent, í apríl um 18,5 prósent, um 23,6 prósent í maí og 16,7 prósent í júní
Í heildina hafa um 1,1 milljón erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll frá áramótum, sem er 13,4 prósent fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.
Spá að 1333 hótelherbergi bætist við á næstu þremur árum
Á síðustu fimm árum hefur framboð hótelherbergja á landinu farið úr 6200 herbergjum í 10.800, sem er aukning um 74 prósent, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Í júlí árið 2009 voru 4600 hótelherbergi á Íslandi og hefur þeim því fjölgað um 133 prósent á síðustu tíu árum.
Greiningardeild Íslandsbanka áætlar að hótelherbergjum fjölgi um 6 prósent á árinu 2019, 17 prósent árið 2020 og 2 prósent árið eftir. Í öðrum orðum telur bankinn bætast muni við 1333 ný hótelbergi á höfuðborgarsvæðið á næstu þremur árum.