Síminn segir að sala að enska boltanum, sem félagið keypti útsendingaréttinn að fyrir nýhafið tímabil sé umfram væntingar. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu vegna birtingar á uppgjöri Símans fyrir annan ársfjórðung ársins 2019 sem var gert opinbert í gær.
Í tilkynningu til Kauphallar er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, að verðið á Síminn Sport, sem sýnir leiki úr ensku úrvaldsdeildinni, og Sjónvarps Símans Premium, en allir áskrifendur að þeirri leið voru gerðir að áskrifendum að enska boltanum, hafi meðvitað verið stillt í hóf, meðal annars til að draga úr freistingu til ólöglegs streymis. Áskriftargjaldið fyrir staka áskrift að Síminn Sport, sem er einnig dreift í gegnum kerfi annarra fjarskiptafyrirtækja, er 4.500 krónur á mánuði en áskriftargjaldið fyrir Sjónvarp Símans Premium var hækkað úr 5.000 í 6.000 krónur á mánuði þegar enska boltanum var bætt inn í þann pakka.
Tekjur af sjónvarpsþjónustu aukast
Enski boltinn vigtar ekki inn í nýbirt uppgjör Símans, enda hófst hann ekki fyrr en í ágúst en uppgjörstímabilinu lauk í lok júní. Því má búast við að áhrif sölu af áskriftarsölu vegna enska boltans komi fyrst fram þegar uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2019 verður birt, en það uppgjörstímabil gildir frá byrjun júlí og út september næstkomandi. Í fjárfestakynningu sagði að salan á bæði Premium pökkum og stökum áskriftum gangi vel og séu umfram væntingar.
Síminn hefur ekki viljað gefa upp hvað félagið greiddi fyrir enska boltann og sagt verðið vera trúnaðarmál. Í fjárfestakynningu Símans sem birt var í gær kemur þó fram að kostnaður „við enska boltann er samkvæmt væntingum“.
Tekjur Símans af allri sjónvarpsþjónustu jukust umtalsvert milli ára. Tekjur vegna Premium pakka jukust um 190 milljónir króna milli ára, eða 27 prósent, og viðskiptavinum sem eru með þá þjónustu fjölgaði um fimm þúsund. Alls voru tekjur Símans vegna sjónvarpsþjónustu 2.631 milljónir króna á fyrri hluta ársins 2019 sem er 322 milljónum krónum meira en á sama tímabili í fyrra. Það er vöxtur upp á 13,9 prósent. Tekjur vegna sjónvarpsþjónustu eru nú 18,7 prósent af heildartekjum félagsins en voru 14,5 prósent í fyrra.
Hagnaður dregst saman
Allt í allt lækkuðu rekstrartekjur Símans á fyrri hluta ársins 2018 þegar borið er saman við sama tímabil í fyrra. Rekstrarhagnaður félagsins var 175 milljónum krónum lægri á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 en hann var á sama tímabili 2018. Rekstrarhagnaður Símans fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir (EBITDA), þegar búið er að leiðrétta fyrir áhrifum af innleiðingu nýrra endurskoðunarstaðla og breyttri framsetningu á sýningarrétti sjónvarpsefnis, var neikvæður um 215 milljónir króna.
Í fjárfestakynningu Símans kemur fram að tekjur vegna farsímaþjónustu, gagnaflutninga og vörusölu hafi lækkað milli ára en að góður gangur í sjónvarpsþjónustu, upplýsingatækni og „öðru“ vegi þar upp á móti.
Samanlögð lækkun farsímatekna af reiki og heildsölu nam til að mynda um 200 milljónum króna á milli ára og breytingar á verðlagningu í ágúst 2018 höfðu áhrif til lækkunar á internettekjum en til hækkunar á sjónvarps- og talsímatekjum.
Sýn birtir í dag
Helst samkeppnisaðili Símans, fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn, mun birta sitt hálfsársuppgjör í dag. Félagið sendi út afkomuviðvörun fyrir rúmri viku þar sem fram kom að tekjur fyrir árið 2019 vegna fjölmiðla og fjarskipta hafi verið ofáætlaðar um tæpar 400 milljónir króna í fyrri áætlun og að kostnaður við útsendingar miðla vanáætlaður um 160 milljónir króna. Til samanburðar þá var árshagnaður Sýnar í fyrra 473 milljónir króna, sem var 57 prósent lækkun frá árinu áður.
Sýn hélt áður á sýningarréttinum á enska boltanum og var hann eitt helsta flaggskipið í vöruframboði félagsins þegar kom að íþróttaafþreyingu, sem miðla Sýnar hafa verið leiðandi í árum saman.
Fjarskiptahluti Sýnar selur vörur sínar undir merkjum Vodafone. Í árshlutareikningi Símans kemur fram að Vodafone hafi lagt fram kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna fyrirkomulags við sölu á útsendingum frá ensku úrvalsdeildinni og gert kröfu um heildsöluaðgang að Síminn Sport. Samkeppniseftirlitið birti frummat sitt í júlí og taldi að ákveðið fyrirkomulag gæti farið í bága við samkeppinslög og afleiddar ákvarðanir. Stofnun hafi þó undirstrikað að um frummat væri að ræða sem gæti breyst og kallaði samhliða eftir frekari gögnum. Í árshlutareikningnum segir að Síminn telji að „afstaða Samkeppniseftirlitsins sé í andstöðu við fyrri framkvæmd og án stuðnings til viðhlítandi gagna. Félagið er þeirrar skoðunar að fyrirkomulag um sölu á þjónustu félagsins sé fyllilega í samræmi við samkeppnislög.“