Tesla á Íslandi mun opna þjónustumiðstöð hérlendis 9. september næstkomandi. Þetta staðfesti Elon Musk, stofnandi og aðaleigandi rafbílaframleiðandans á Twitter í gær.
Opening on 9/9
— Elon Musk (@elonmusk) August 30, 2019
Búið er að koma merki Tesla fyrir á húsnæði við Krókháls í Reykjavík og á vef Tesla segir að til standi að setja upp öflugar hraðhleðslustöðvar, svokallaðar „superchargers“, á fjórum stöðum á landinu í nánustu framtíð. Þær eiga að vera í Reykjavík, á Kirkjubæjarklaustri, Egilsstöðum og við Staðarskála. Slíkar stöðvar hlaða rafbíla á um hálftíma.
Tesla Model 3 er sem stendur vinsælasti rafbíll Evrópu. Í júní síðastliðnum seldust 11.604 slíkir bílar. Næst vinsælasti rafbíllinn var Renault Zoey, en 4.881 slíkir seldust í þeim mánuði.
Í lok apríl sagði Morgunblaðið frá því að Tesla væri með áform um að opna einhvers konar útibú á Íslandi og að það yrði staðsett í Krókhálsi. Í maí var greint frá því á vefsíðu Tesla af fyrirtækið væri að auglýsa eftir verslunarstjóra, sölumanni, tæknimanni og þjónustufulltrúa í fullt starf. Þá var einnig auglýst staða vörusérfræðings í hlutastarfi.
Posted by Bjorn Magnusson on Friday, August 30, 2019
Stefnt að 100 þúsund rafbílum á Íslandi eftir rúman áratug
Íslenski fólksbílaflotinn taldi alls 220 þúsund bíla um mitt þetta ár. Þar af voru 3.155 hreinir rafmagnsbílar. Þá voru um 7.000 tengiltvinnbílar og 1.551 metanbílar hér á landi. Sala á bílum sem eru að einhverju eða öllu leyti knúnir af raforku hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 hafa hreinir rafmagnsbílar auk tengiltvinnbíla og hybrid bíla verið tæplega 22 prósent af heildarbílasölunni hér á landi.
Ríkisstjórn Íslands lagði fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í september í fyrra. Markmiðið með áætluninni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Eitt af áhersluatriðum áætlunarinnar eru orkuskipti í samgöngum sem er stærsti losunarþátturinn sem snýr að beinum skuldbindingum Íslands. Í heildina áætlar ríkisstjórnin að verja 1,5 milljarða króna til orkuskipta á fimm ára tímabili.
Eitt af þeim aðgerðum sem finna má í áætluninni er að stuðningur við innviði fyrir rafbíla og aðrar vistvænar bifreiðar. Samkvæmt áætluninni er stefnt að því að draga losun frá vegasamgöngum um 35 prósent til ársins 2030 eða um helming frá því sem nú er. Einn angi af því markmiði er að árið 2030 verða 100.000 skráðir rafbílar og önnur vistvæn ökutæki á Íslandi.