Skattur á tíðavörur og getnaðarvarnir lækkaði í gær þegar ný lög tóku gildi. Fyrr í sumar samþykkti Alþingi að færa þessar vörur úr efra þrepi virðisaukaskatts, 24 prósentum, í lægra þrep virðisaukaskatts, 11 prósent.
Lengi hefur verið barist fyrir þessum breytingum og hafa konur vakið athygli á því að það að fara á blæðingar sé ekki val og að skattleggja tíðavörur, sem nauðsynlegar eru flestum konum og öðru fólki sem fer á blæðingar, sem munað skjóti því skökku við.
Þriðja sinn sem frumvarpið var lagt fram á Alþingi
Skattlagning tíðavara hefur lengi verið til umræðu hér á landi en frumvarp þess efnis hefur verið lagt fram þrisvar á Alþingi frá árinu 2015. Þann 11. júní síðastliðinn samþykkti Alþingi loks frumvarp um að lækka virðisaukaskatt á tíðavörur og getnaðarvarnir úr efra þrepi í það neðra. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins sem lagt var fram af þingmönnum Pírata, Samfylkingar, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Í gær, þann 1. september, tóku lögin síðan gildi sem gerir það að verkum að virðisaukaskattur á tíðavörur á borð við dömubindi, túrtappa og álfabikar, lækkar úr 24 prósentum í 11 prósent. Auk þess munu allar tegundir getnaðarvarna falla í lægra þrep virðisaukaskatts.
Munar um rúmlega 40 milljónir á ári
Talað var um afnám bleika skattsins í kjölfar þess að frumvarpið var samþykkt á Alþingi. Svokallaður bleiki skattur er þegar vörur sem ætlaðar eru konum eru dýrari en samskonar vörur fyrir karla. Fyrir gildistöku laganna féllu smokkar í lægra þrep virðisaukaskatts en aðrar getnaðarvarnir sem nýttar eru af konum í efra skattþrepið.
„Hver mánuður skiptir íslenskar konur máli þegar kemur að kostnaði tengdum getnaðarvörnum og tíðavörum. Sú einfalda aðgerð að færa getnaðarvarnir og tíðavörur úr efra virðisaukaskattsþrepinu niður í það neðra er stórt skref í áttina að því að létta þá efnahagslegu byrgði kvenna sem þær bera umfram karlmenn líffræði sinnar vegna,“ segir í umsögn Femínistafélag Háskóla Íslands um frumvarpið.
Í greinargerð frumvarpsins er greint frá því að áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna lækkunar virðisaukaskatts á tíðavörur hljóðar upp á 37,9 milljónir árlega og fjórar milljónir vegna getnaðarvarna.
Kom til umræða að fella virðisaukaskattinn niður með öllu
Í nefndaráliti efnahags- og atvinnu nefndarinnar segir að við umfjöllun málsins í nefndinni hafi komið til umræðu hvort tilefni væri til þess að fella virðisaukaskatt af þeim vörum sem frumvarpið varðaði niður með öllu.
Hins vegar taldi nefndin að þar sem ekki hafi tíðkast að undanþiggja neysluvörur virðisaukaskatti með öllu hér á landi þá krefðist slík breyting ítarlegri skoðunar.