Annað hvort ætti að selja að minnsta kosti 25 prósent hlut í Íslandsbanka í hlutafjárútboði og skrá þau bréf tvíhliða á markað, eða að selja allt að öllu hlutafé í bankanum með uppboðsleið þar sem önnur fjármálafyrirtæki eða sjóðir geti gert tilboð í hann. Þetta kemur fram í minnisblaði Bankasýslu ríkisins, stofnunar sem heldur utan um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem lagt var fram á fundi ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins fyrir um tveimur vikum.
Greint er frá þessu í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag. Þar segir þó einnig að ekkert hafi enn verið ákveðið af hálfu stjórnvalda um hvenær eigi að hefja sölu á ríkisbönkunum, Íslandsbanka og Landsbanka.
Heimild til að selja
Íslenska ríkið á sem stendur tvo banka, Íslandsbanka og Landsbankann. Heimild er fyrir því í fjárlögum að selja allt hlutafé ríkisins í Íslandsbanka og allt utan 34 prósenta í Landsbankanum. Samanlagt eigið fé bankanna tveggja í dag er um 417 milljarðar króna. Ríkisbankarnir greiddu eigendum sínum 207 milljarða króna í arð á árunum 2013-2018.
Þá var einnig lagt til að það verði skoðað gaumgæfilega hvernig megi efla samstarf bankanna á sviði innviða í fjármálakerfinu, til að auka hagræðingu í bankakerfinu og bæta þannig kjör til neytenda.
Yfirgnæfandi andstaða við það að selja bankana
Alls eru 61,2 prósent landsmanna jákvæðir gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi viðskiptabanka. Fjórðungur þjóðarinnar, 25,2 prósent, hefur enga fastmótaða skoðun á slíku eignarhaldi og einungis 13,5 prósent Íslendinga eru neikvæðir gagnvart slíku eignarhaldi.
Þetta er meðal þess sem kom fram í rannsókn sem Gallup vann fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið og birtist með Hvítbókinni. Markmið könnunarinnar var að skoða ítarlega traust til bankakerfisins á Íslandi, hverjar væru helstu ástæður fyrir vantrausti og hvað mætti betur fara. Úrtakið var 1.408 manns 18 ára og eldri af landinu öllu. Þátttökuhlutfall var 54,5 prósent.
Þeir sem voru neikvæðir gagnvart því að ríkið væri eigandi viðskiptabanka töldu það ekki vera hlutverk ríkisins né að það væri hæft til þess að eiga viðskiptabanka. Þá væri hætta á spillingu og eignarhald á viðskiptabanka væri þar að auki áhættusamt fyrir ríkið.