Alls verða 200 milljónir króna settar í aukin framlög til skatteftirlits verði nýtt fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að lögum.
Féð á að renna til ríkisskattstjóra og nýtast til að fyrirbyggja og draga úr skattsvikum. Hin aukna fjárheimild er í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar í málaflokknum og í fjárlagafrumvarpinu segir að gera megi ráð fyrir því að það muni skila „auknum tekjum ríkissjóðs á næstu árum og þannig jákvæðum áhrifum á afkomu ríkissjóðs.“
Samkvæmt áformunum er því áætlað að um nokkurs konar fjárfestingu sé að ræða, og tilgreint er í fjármlagafrumvarpinu að aðgerðin muni skila ríkissjóði um 250 milljónir króna í tekjur umfram tilkostnað á árinu 2020.
Því virðist gengið út frá því að skattsvik upp á að minnsta kosti 450 milljónir króna árlega séu að eiga sér stað, en vegna skorts á eftirliti sé ekki verið að opinbera né uppræta þau.
Samstaða í ríkisstjórn um málið
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var sérstaklega fjallað um að efla þyrfti skattrannsóknir og að áhersla þyrfti sömuleiðis að vera á „alþjóðlegt samstarf gegn skattundanskotum og skattsvikum þannig að Ísland skipi sér í fremstu röð ríkja sem berjast gegn skattaskjólum.“
Skömmu eftir að ríkisstjórnin var mynduð sagði Katrín, í viðtali í sjónvarpsþætti Kjarnans í desember 2017, að það væri átaksþörf í skatteftirliti. „Hver króna sem við setjum í þessi mál, hún mun skila sér margfalt til baka. Ég held að það sé alveg samstaða um það í ríkisstjórninni.“
Forsætisráðherra sagði skattaundanskotin væru tvíþætt. Annars vegar séu hin alþjóðlegu skattsvik, þar sem fjármuni séu til að mynda faldir í aflandsfélögum, og hins vegar sú svarta atvinnustarfsemi sem þrífist hér á Íslandi.Á báðu þyrfti að taka og það þýddi að fjárframlög til þeirra embætta sem fara með eftirlit og rannsóknir á skattaundanskotum, sem eru ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri, myndu verða aukin.
Nú virðist sem þau auknu fjárframlög séu að verða að veruleika.