Bandaríska fyrirtækið USAerospace Associates LLC hefur boðað til blaðamannafundar í dag klukkan 13:30 á Grillinu á Hótel Sögu þar sem það mun tilkynna um kaup sín á eignum af skiptastjórum þrotabús WOW Air. Michele Roosevelt Edwards, stjórnarformaður USAerospace Associates LLC, boðar til blaðamannafundarins.
Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra WOW air, vildi ekkert tjá sig um málið í samtali við Kjarnann.
Í skýrslu skiptastjóra WOW air, sem kynnt var fyrir kröfuhöfum félagsins í ágúst, kemur fram að þrotabú félagsins væri enn í viðræðum við nokkra aðila um sölu á vörumerkinu WOW air, lénum félagsins, bókunarvél og ýmsu lausafé sem tengist rekstri félagsins. „Þær viðræður ganga ágætlega og vonast skiptastjórar til þess að ljúka samningum um sölu þeirra eigna,“ sagði í skýrslunni.
Eini áhugasami kaupandinn sem greint hafði verið frá opinberlega á þeim tíma var bandaríska athafnakonan Michelle Ballarin. Hún gengur einnig undir nafninu Michele Roosevelt Edwards og er sú sem heldur fundinn á eftir en Michelle tók upp Ballarin nafnið þegar hún giftist fyrri eiginmanni sínum.
Hún gerði kaupsamning um valdar eignir úr þrotabúi WOW air í júlí. Hún kom svo í viðtal við ViðskiptaMoggann skömmu síðar og þar fullyrti hún að búið væri að tryggja milljarða króna til reksturs nýs flugfélags á grunni WOW air sem ætti að duga næstu tvö árin.
Ballarin var svo stödd hér á landi á ný um miðjan ágúst. Fréttavefurinn Túristi.is, sem sérhæfir sig í ferðaþjónustutengdum fréttum, greindi þá frá því að erindi hennar væri að að reyna aftur við stofnun nýs flugfélags á grunni WOW air. Hérlendis voru fulltrúar hennar sagðir almannatengillinn Gunnar Steinn Pálsson og lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson.
Sveinn Andri sagði á þeim tíma, í samtali við Kjarnann, að Ballarin hefði ekki sett sig í samband við þrotabúið á ný.