Gagnaverum hefur fjölgað hratt á Íslandi á undanförnum árum. Nú eru fjögur þeirra orðin það stór að þau teljast sem stórnotendur orku. Orkustofnun telur að orkuþörf gagnaveranna muni halda áfram að aukast og að árið 2022 verði aflþörf gagnavera orðin 150 MW og um 1.260 GWh í orku. Eitt helsta verkefni gagnavera á Íslandi er að grafa eftir rafmyntinni bitcoin.
Raforkunotkun gagnavera meiri í fyrra en gert var ráð fyrir
Í nýrri raforkuspá Orkustofnunar fyrir árin 2019 til 2050 sem birt var fyrr í vikunni er búið að endurreikna raforkuspá stofnunnar frá 2015 út frá nýjum gögnum og breyttum forsendum. Í spánni er meðal annars fjallað um að hvernig raforkunotkun gagnavera hefur verið að aukast hratt á undanförnum árum. Sú notkun er að stærstum hluta tekin frá flutningskerfinu (stórnotendur) og var sú notkun um 500 gígavattstundum meiri í fyrra en spáin frá 2015 gerði ráð fyrir.
Nú eru um fjögur gagnaver hér á landi orðin það stór að þau teljast stórnotendur raforku. Það eru gagnaverin Verne, sem hóf starfsemi sína árið 2011, og gagnaver Advania, en bæði eru þau í Reykjanesbæ. Afhending raforku til gagnavers Advanda færðist frá dreifikerfinu yfir til flutningskerfisins, eða frá almennri notkun yfir í stórnotenda, í ársbyrjun 2016.
Á árinu 2019 bættist síðan við gagnaver Etix á Blönduósi í hóp stórnotenda og síðar í ár mun gagnaver Etix á Suðurnesjum færast frá dreifikerfinu yfir til flutningskerfisins.
Gagnaverin munu nota 1260 GWh árið 2022
Í nýrri raforkuspá Orkustofnunar er gert ráð fyrir að orkunotkun gagnaveranna fjögurra verði um 1030 GWh í ár og um 130 MW í afli. Eftir þrjú ár , árið 2022, verður aflþörf gagnaveranna komin upp í 150 MW og um 1260 GWh í orku, samkvæmt spánni.
Aftur á móti er gagnaverið sem rís nú á Korputorgi, sem eru í eigu Opinna Kerfa, Vodafone, Reiknistofu Bankanna og Korputorgs ehf., ekki tekið með í útreikninga Orkustofnunnar þar sem ekki er enn búið að ljúka samningum við gagnaverið. Gagnaverið á Korputorgi verður um 5000 fermetrar að stærð þegar það verður fullbyggt en gert er ráð fyrir að framkvæmdum við fyrsta áfanga gagnaversins verði lokið í haust.
Líkur á aflskorti árið 2022
Landsnet gefur árlega út skýrslu um afl- og orkujöfnuð í landinu og í nýjustu skýrslu þeirra kemur fram að líkur á aflskorti hér á landi séu lágar til ársins 2021 en hækki svo eftir það. Samkvæmt skýrslunni starfar það af því að úttekt frá flutningskerfinu mun aukast meira en áður var reiknað með, meðal annars vegna notkunaraukningar hjá gagnaverum.
Landsnet segir í skýrslunni að ef halda á líkum á aflskorti undir viðmiðum þurfi að koma fleiri framleiðslueiningar í rekstur á tímabilinu en reiknað með, eða álag að minnka.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, sagði í viðtali við fréttastofu RÚV í júlí að líkur séu á á tímabundnum aflskorti hér á landi eftir þrjú ár og að stjórnvöld þyrftu að ákveða hvernig bregðast ætti við.
„Í verstu árunum þá kæmi til þess að það þyrfti að taka ákvarðanir og draga úr notkun ef að við erum ekki komin með aukaafl inn í kerfið,“ sagði Guðmundur Ingi. „Nú það er líka möguleiki að nota varastöðvarnar, sem reyndar eru olíustöðvar, til þess að fylla í holurnar.“