WOW air mun hefja lágfargjaldaflugrekstur til Bandaríkjanna og Evrópu í næsta mánuði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá USAaerospace Associates LLC sem samið hefur um kaup á eignum úr þrotabúi WOW air. Fyrsta flugið er áformað milli Dulles flugvallar í Washington í Bandaríkjunum og Keflavíkurflugvallar í október.
Stærsti hluthafi USAerospace Associates LLC Michele Roosevelt Edwards, einnig þekkt sem Michele Ballarin. Hún hafði áður gert tilraun, og náð samningum um, að kaupa eignir WOW air.
Hún greindi frá þessu á blaðamannafundi sem nú stendur yfir á Grillinu á Hótel Sögu. Áætlanir nýrra eigenda að WOW air vörumerkinu gera ráð fyrir vaxandi umsvifum þegar líður á komandi vetur og aukin áhersla verður lögð á þátt vöruflutninga í starfsemi fyrirtækisins.
Höfuðstöðvar WOW air verða á Washington Dulles flugvellinum í Bandaríkjunum en félagið verður með aðstöðu á flugvellinum í Keflavík og með skrifstofu í Reykjavík.
Ballarin sagði þó að ekki lægi fyrir hvar til að mynda skattalegt heimilisfesti WOW air yrði. Það yrði fundið út úr því í nánustu framtíð.
Munu flytja sjávarfang
Ballarin segir í fréttatilkynningu að endurvakinn flugrekstur WOW air skipti almenning á Íslandi og í Bandaríkjunum miklu máli og að hann muni efla bæði menningarleg og viðskiptaleg tengs milli Reykjavíkur og Washington. „Við hyggjumst auka umsvifin í farþegafluginu með fleiri flugvélum áður en sumarið heilsar okkur. Frá fyrsta degi í vöruflutningunum, sem einnig munu hefjast á næstu vikum, munum við leggja mikinn metnað í vandaða þjónustu á sviði vöruflutninga með ferskt íslenskt sjávarfang á Bandaríkjamarkað.“
Í stjórnendateymi WOW air verða meðal annars Charles Celli, rekstrarstjóri hjá USAerospace. Hann starfaði meðal annars í stjórnunarstöðu hjá Boeing áður fyrr en WOW air notaðist einvörðungu við Airbus vélar á þeim tíma sem Skúli Mogensen átti og rak félagið.
Reyndi áður
WOW air fór í þrot 28. mars 2019 eftir margra mánaða dauðastríð sem fór fram fyrir opnum tjöldum.
Í skýrslu skiptastjóra WOW air, sem kynnt var fyrir kröfuhöfum félagsins í ágúst, kom fram að þrotabú félagsins væri enn í viðræðum við nokkra aðila um sölu á vörumerkinu WOW air, lénum félagsins, bókunarvél og ýmsu lausafé sem tengist rekstri félagsins. „Þær viðræður ganga ágætlega og vonast skiptastjórar til þess að ljúka samningum um sölu þeirra eigna,“ sagði í skýrslunni.
Eini áhugasami kaupandinn sem greint hafði verið frá opinberlega á þeim tíma var Michelle Ballarin.
Hún gerði kaupsamning um valdar eignir úr þrotabúi WOW air í júlí. Hún kom svo í viðtal við ViðskiptaMoggann skömmu síðar og þar fullyrti hún að búið væri að tryggja milljarða króna til reksturs nýs flugfélags á grunni WOW air sem ætti að duga næstu tvö árin.
Ballarin var svo stödd hér á landi á ný um miðjan ágúst. Fréttavefurinn Túristi.is, sem sérhæfir sig í ferðaþjónustutengdum fréttum, greindi þá frá því að erindi hennar væri að að reyna aftur við stofnun nýs flugfélags á grunni WOW air. Hérlendis voru fulltrúar hennar almannatengillinn Gunnar Steinn Pálsson og lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson.