Hagnaður Stoða, sem einu sinni hétu FL Group, var rúmlega tveir milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2019. Það er rúmlega tvöfaldur hagnaður félagsins á öllu árinu 2018, þegar slíkur nam 1,1 milljarði króna.
Eigið fé Stoða hefur aukist verulega það sem af er ári. Það var 23,2 milljarðar króna í lok júní síðastliðins var 17,5 milljarðar króna í lok árs 2018. Það hefur því aukist um 5,7 milljarða króna á sex mánuðum. Þetta kemur fram í frétt sem birt hefur verið á heimasíðu félagsins.
Vert er að taka fram að hlutafé í Stoðum var aukið um 3,7 milljarða króna í maí. Hluti þeirra hluthafa sem tóku þátt í þeirri aukningu greiddu fyrir með hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni.
Stóraukin umsvif á örfáum mánuðum
Stoðir hafa farið mikinn í íslensku viðskiptalífi það sem af er ári. Félagið keypti stóran hlut í Arion banka í vor og eru sem stendur stærsti íslenski einkafjárfestirinn í bankanum með 4,96 prósent eignarhlut. Auk þess hefur félagið verið að bæta verulega við sig í Símanum og er orðið stærsti eigandi þess félags með um þrettán prósent eignarhlut. Þau uppkaup hófust í apríl síðastliðnum. Stoðir eru líka stærsti hluthafi tryggingafélagsins TM.
Þá vakti athygli þegar greint var frá því í Fréttablaðinu í sumar að Stoðir hefði lánað fjármálafyrirtækinu GAMMA, sem var þá í þeim fasa að sameinast Kviku banka, einn milljarð króna haustið 2018. Lánið var veitt til að bæta lausafjárstöðu GAMMA, sem var þá mjög döpur. Stoðir fengu 150 milljónir króna í þóknun fyrir að veita lánið sem var að fullu greitt upp í byrjun mars 2019.
18 milljarðar sátu eftir þegar Refresco var selt
Stoðir voru stærsti eigandi Glitnis banka fyrir bankahrun. Félagið fór í greiðslustöðvun þegar sá banki fór á hausinn og kröfuhafar þess tóku það yfir. Vorið 2017 keyptu svo félög, í eigu stórra hluthafa í Tryggingamiðstöðinni (TM) sem voru margir hverjir lykilmenn í FL Group á árunum fyrir hrun, ráðandi hlut í Stoðum.
Þá áttu Stoðir einungis eina eign af viti sem átti eftir að vinna úr, hlut í hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco. Sá hlutur var seldur í mars 2018 eftir yfirtökutilboð og eftir sátu um 18 milljarðar króna í Stoðum. Þeir fjármunir hafa verið notaðir í fjárfestingar á undanförnum misserum.
Formaður stjórnar Stoða er Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri FL Group á árunum fyrir hrun, en með honum í stjórn sitja þeir Sigurjón Pálsson og Örvar Kærnested. Framkvæmdastjóri félagsins er Júlíus Þorfinnsson.
Á meðal stærstu eigenda, auk Jóns, eru Magnús Ármann og Einar Örn Ólafsson.