Efri deild Mannréttindadómstóls Evrópu hefur ákveðið að taka hið svokallaða Landsréttarmál fyrir. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest en málsaðilum var greint frá þessu í dag. Greint verður frá ákvörðuninni opinberlega á morgun.
Alls munu fimm dómarar taka málið til umfjöllunar.
Dómstóllinn felldi dóm sinn í málinu 12. mars síðastliðinn. Í honum fengu bæði Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Alþingi á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan 15 dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017.
Sigríður fyrir að hafa brotið stjórnsýslulög með því að breyta listanum um tilnefnda dómara frá þeim lista sem hæfisnefnd hafði skilað af sér, og fært fjóra dómara af þeim lista en sett aðra fjóra inn á hann án þess að rannsaka og rökstyðja þá ákvörðun með nægjanlegum hætti. Alþingi fyrir að hafa kosið um skipan dómaranna allra í einu, í stað þess að kjósa um hvern fyrir sig. Sigríður sagði af sér embætti daginn eftir dóminn og óvissa ríkir um starfsemi millidómstigsins vegna dómsins.
Íslenska ríkið ákvað í apríl að áfrýja þeirri niðurstöðu og beina því til efri deildar dómsins að taka málið aftur fyrir.
Sigríður hefur gagnrýnt niðurstöðuna
Dómur MDE, sem var í máli manns sem heitir Guðmundur Andri Ástráðsson, var á þann veg að það væri brot á mannréttindum þeirra sem koma fyrir Landsrétt að fjórir ólöglega skipaðir dómarar dæmi í málum þeirra hefur mikilli spennu í íslensku samfélagi. Dómararnir fjórir geta ekki dæmt og um tíma starfaði Landsréttur ekki.
Niðurstaðan var umdeild og var harðlega gagnrýnd úr ýmsum áttum. Sigríður Á. Andersen sagði í maí, í aðsendri grein í Morgunblaðinu, að MDE hefði gerst sekur um atlögu gegn dómskerfi Íslendinga. „Þess vegna voru mér það sár vonbrigði að sjá íslensk stjórnmál, fjölmiðla og réttarkerfið falla á kné þegar erlend nefnd sem ekkert umboð hefur frá sjálfstæðum Íslendingum gerði atlögu að dómskerfi okkar Íslendinga.“
Í ágúst tók hún enn sterkara til orða í stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún fjallaði um orð Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, vegna svarleysis núverandi dómsmálaráðherra vegna fyrirspurnar hennar um kostnað hins opinbera af Landsréttarmálinu svokallaða. „Háttvirtur formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis notar orðið „skítur“ um það að íslenska ríkið taki til varna þegar að hagsmunum Íslands og íslenskrar stjórnskipunar er sótt í gegnum erlendar stofnanir. Það kemur svo sem ekki á óvart að Samfylkingin taki afstöðu gegn Íslandi eins og hún gerði í Icesave málinu og með umsókninni og aðlöguninni að Evrópusambandinu á sínum tíma. En þetta orðbragð lýsir alveg nýjum metnaði gegn hagsmunum Ísland.“