Íslendingar geta nú keypt Teslu Model 3 frá 4.990.000 krónum án virðisaukaskatts í gegnum heimasíðu fyrirtækisins ef um staðgreiðslu er að ræða, en það opnaði starfsstöð sinni hérlendis í gær. Bíllinn yrði til afhendingar á fyrri hluta ársins 2020.
Verðlistinn á bílum frá Teslu fyrir íslenskan markað var birtur í gær. Á Íslandi eru ýmsir fjárhagslegir hvatar innbyggðir fyrir kaupendur til að versla sér rafbíl, sem í felst meðal annars undanþága frá greiðslu 24 prósents virðisaukaskatts á kaupverði upp að sex milljónum króna, undanþága frá innflutningsgjöldum og lægri bifreiðagjöld.
Á heimasíðu Tesla er áætlað að sá sem keyrir 20 þúsund kílómetra á ári spari sér um 1,6 milljónir króna í eldsneytissparnað á fimm ára tímabili með því að skipta yfir í rafbíl, en fimm ár er meðallengd þess sem fólk á hvern bíl.
Það er einnig hægt að panta aðrar og dýrari gerðir af Teslum á heimasíðunni. Öll verð eru gefin upp í íslenskum krónum og miðað við íslenskt gjaldaumhverfi. Model X kostar frá 10.890.000 krónum án virðisaukaskatts og Model S kostar frá 9.890.000 krónum án virðisaukaskatts.
Vinsælasti rafbíll í Evrópu
Elon Musk, stofnandi og aðaleigandi Tesla, staðfesti að fyrirtækið myndi opna þjónustumiðstöð hérlendis 9. september á Twitter fyrir rúmri viku. Húsnæðið er við Krókháls í Reykjavík og á vef Tesla segir að til standi að setja upp öflugar hraðhleðslustöðvar, svokallaðar „superchargers“, á fjórum stöðum á landinu í nánustu framtíð. Þær eiga að vera í Reykjavík, á Kirkjubæjarklaustri, Egilsstöðum og við Staðarskála. Slíkar stöðvar hlaða rafbíla á um hálftíma.
Tesla Model 3 er sem stendur vinsælasti rafbíll Evrópu. Í júní síðastliðnum seldust 11.604 slíkir bílar. Næst vinsælasti rafbíllinn var Renault Zoe, en 4.881 slíkir seldust í þeim mánuði.
Vinsældir hans í Bandaríkjunum eru enn meira afgerandi, en það sem af er ári hafa þar selst 81.100 slíkir í landinu. Næst söluhæsti raftengdi bílinn þar er Toyota Prius Prime en 11.555 eintök af þeirri tegund, sem er tengitvinnbíll, hafa selst í Bandaríkjum á fyrstu sjö mánuðum ársins 2019. Þriðji vinsælasti rafbílinn þar er síðan önnur Tesla, Model X, sem selst hefur í 10.225 eintökum í ár.